Innlent

Hafa ekki fengið formlegt svar um yfirtöku á máli Sunnu Elvíru

Birgir Olgeirsson skrifar
Sunna Elvíra á sjúkrahúsinu á Malaga.
Sunna Elvíra á sjúkrahúsinu á Malaga. Vísir/Egill
Íslensk lögregluyfirvöld hafa ekki fengið formlegt svar um yfirtöku á rannsókn á máli Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur - sem lamaðist á Spáni -  og geta því ekki ennþá sagt til um hver réttarstaða hennar er.

Síðastliðinn fimmtudag var greint frá því að farbanni yfir Sunnu Elvíru hefði verið aflétt og undirbúningur hafinn við að flytja hana til Íslands.

Páll Kristjánsson, lögmaður Sunnu Elvíru, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu og sagði að Sunna Elvíra verði flutt hingað með sjúkraflugi. Vonaðist hann til að það yrði sem allra fyrst. Hann sagði enn fremur að ekkert benti til þess að Sunna Elvíra hefði réttarstöðu sakbornings, hvorki á Spáni né hér á landi. Hún hefði mögulega réttarstöðu vitnis þegar hún kæmi hingað til lands.

Í svari íslenskra lögregluyfirvalda til fréttastofu kemur fram að þau hafi ekki fengið formlegt svar við réttarbeiðni um yfirtöku rannsóknar á málinu þótt þeim sé kunnugt um að viðbrögð spænskra yfirvalda séu jákvæð. Staðan verður metin þegar og ef gögn frá spænskum lögregluyfirvöldum verða afhent og þá tekin afstaða til réttarstöðu viðkomandi einstaklinga.

Mál Sunnu Elvíru hefur vakið athygli flestra landsmanna frá því hún féll niður af svölum á heimili sínu á Malaga á Spáni þann 17. janúar síðastliðinn. Sunna Elvíra hlaut mænuskaða í því slysi og er lömuð fyrir neðan brjóst, hún hefur nú verið úrskurðuð lömuð fyrir lífstíð. Eiginmaður hennar, Sigurður Kristinsson, var handtekinn við komuna til Íslands eftir að hún slasaðist vegna gruns um aðild að „Skáksambandsmálinu“ svokallaða og var Sunna Elvíra sett í farbann í kjölfarið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×