Arnór Ingvi Traustason reyndist hetja Malmö þegar liðið vann 1-2 sigur á Elfsborg í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag. Arnór Ingvi kom Malmö í 1-2 um miðbik fyrri hálfleiks.
Suðurnesjamaðurinn var að leika sinn fyrsta deildarleik fyrir Malmö en hann þekkir vel til í Svíþjóð eftir að hafa slegið í gegn með Norrköping á árunum 2014-2016.
Í kjölfarið var hann keyptur til austurríska stórliðsins Rapid Wien en þar gengu hlutirnir ekki jafn vel og var Arnór Ingvi lánaður til AEK í Grikklandi áður en hann var keyptur til Malmö síðasta haust.
Arnór Ingvi fagnaði markinu með því að halda fyrir bæði eyrun. Var hann spurður út í fagnið af sænskum fjölmiðlum eftir leik.
„Þetta var bara fyrir mig. Ég hef orðið fyrir mikilli gagnrýni á undanförnum árum. Stundum þarf maður að loka eyrunum fyrir því og hlusta á sjálfan sig. Mér líður vel núna og sjálfstraustið er á réttri leið eftir að ég kom til Malmö.“
„Fólk er alltaf tilbúið til að gagnrýna og að sjálfsögðu er gott að geta svarað því. Mikilvægast af öllu er að trúa á sjálfan sig. Fólkið mitt styður mig í gegnum allt,“ sagði Arnór Ingvi sigurreifur.
Fótbolti
Arnór Ingvi: Gott að svara gagnrýnisröddum
Tengdar fréttir
Arnór Ingvi tryggði Malmö sigur
Arnór Ingvi Traustason var á skotskónum í sigri Malmö.