Keflavík og Valur mætast í kvöld í fyrsta leik sínum í undanúrslitum Domino´s deildar kvenna í körfubolta.
Keflavíkurliðið tók annað sætið af Valskonum á lokasprettinum og verður því með heimavallarréttinn í þessu einvígi.
Keflavíkurkonur eru ríkjandi Íslandsmeistarar og unnu bikarinn annað árið í röð á dögunum. Valsliðið hefur aldrei komist í lokaúrslitin um Íslandsmeistaratitilinn.
Körfuboltakvöld fór vel yfir þetta einvígi á milli Keflavíkur og Vals en þar sögðu þau Ágúst Björgvinsson og Pálína Gunnlaugsdóttir sína skoðun á því hvernig þetta einvígi muni koma til að spilast.
„Fyrirfram á þetta að vera mjög spennandi einvígi. Liðin eru búin að mætast fjórum sinnum á tímabilinu og þar er 2-2. Við sjáum vonandi kannski oddaleik í þessu einvígi,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Körfuboltakvölds, þegar hann hóf umræðuna um einvígi Keflavíkur og Vals.
„Liðin hafa skipst á að vinna í vetur og hafa bæði unnið á heimavelli hins liðsins. Valur vann síðasta leik þeirra mjög stórt en sá leikur gaf Keflavíkurliðunu spark í afturendann og þær eru að spila miklu betur eftir að þær töpuðu þeim leik,“ sagði Ágúst Björgvinsson.
Keflavíkurkonur hafa unnið fimm leiki í röð eftir þetta tap á Hlíðarenda þar af unnu þær deildarmeistara Hauka með tuttugu stigum.
„Þær eru á mikilli siglingu og þær eru með Sverri til að leiða liðið áfram. Þær geta ekki annað en komið undirbúnar í þetta einvígi á móti Val. Valsstúkur og Darri hafa samt komið mér svolítið á óvart í ár. Þær eru með ungan og óreyndan þjálfara sem hafði ekki þjálfað í úrvalsdeild áður,“ sagði Pálína Gunnlaugsdóttir um einvígið en bætti svo við.
„Þetta eru öll gríðarlega sterk lið sem eru að fara að mætast í þessari úrslitakeppni og ég held að úrslitakeppni kvenna verði ekki minni veisla en úrslitakeppni karla,“ sagði Pálína.
Það má finna all umfjöllun Körfuboltakvölds um einvígi Keflavíkur og Vals í spilaranum hér fyrir ofan.
Körfuboltakvöld: „Úrslitakeppni kvenna verður ekki minni veisla en úrslitakeppni karla“
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mest lesið
Fleiri fréttir
