Innlent

Breyta þarf fleiru en fjármagnstekjuskatti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það var Menntasjóður Viðskiptaráðs Íslands sem stóð að stofnun Háskólans í Reykjavík.
Það var Menntasjóður Viðskiptaráðs Íslands sem stóð að stofnun Háskólans í Reykjavík. Fréttablaðið/Ernir
Breyta þarf fleiru en fjármagnstekjuskatti svo að skattaumhverfi fyrir þá styrki sem háskólar fá sé sambærilegt við skattaumhverfið í þeim löndum sem Íslendingar vilja helst bera sig saman við. Þetta segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands, sem styrkir stúdenta til náms við Háskóla Íslands, greiðir að jafnaði álíka mikið í fjármagnstekjuskatt og hann veitir í styrki. Væri skatta­umhverfið hér sambærilegt við umhverfið erlendis gæti sjóðurinn úthlutað hér um bil tvöfalt meiri styrkjum.

Ari segir að Eimskipssjóðurinn hafi sérstöðu vegna þess að úr þeim sjóði sé fyrst og fremst úthlutað af tekjum sem fást með ávöxtun sjóðsins. Fjármagnstekjuskatturinn leggst á fjármagnstekjur af sjóðnum sjálfum og skerðir þá upphæð sem hægt er að úthluta á hverju ári. Fjármagnstekjuskattur hafi hins vegar takmörkuð áhrif á framlög eða sjóði þar sem gengið er á höfuðstólinn.

„Hitt er að í mörgum löndum er það þannig að fyrirtæki eða einstaklingar sem eru tilbúnir að setja fjármuni í styrki í háskóla eða rannsóknarstarfsemi fá oft veittan skattaafslátt á móti. Þetta er til dæmis ein af driffjöðrunum í Bandaríkjunum þar sem gríðarlega miklir fjármunir koma frá atvinnulífinu og einstaklingum til að styðja við þá öflugu háskólastarfsemi og rannsóknarstarfsemi sem þar fer fram,“ segir Ari. Það sé mjög mikilvægt fyrir háskóla- og vísindastarf á Íslandi að breyta skattaumhverfinu í átt að því sem best gerist í öðrum löndum.



Ari Kristinn Jónsson rektor
„Það væri mjög áhugavert að taka þessa umræðu og færa hana upp á almennara plan, að horfa til fjármagnstekjuskattsins, að horfa til skattaafsláttar fyrir framlög í sjóði eða annað sem styrkir háskólastarfsemi og síðast en ekki síst á virðisaukaskatt og aðra skatta sem leggjast á starfsemi sem er studd beint af framlögum úr samkeppnissjóðum eða slíku,“ segir Ari.

Hann segir að það sé áhugi hjá yfirvöldum fyrir því bæta úr. Málið hefur meðal annars verið sett á stefnuskrá hjá Vísinda- og tækniráði sem mótar opinbera stefnu í vísindum og tækni á Íslandi. 

„Ég held að þetta sé fyrst og fremst spurning um forgangsröðun. Ég held að stjórnvöld myndu ekki sjá eftir viðbótaraurum í góða rannsóknar- og þróunarstarfsemi og háskólastarfsemi,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×