Þjóðverjinn Sebastian Vettel sigraði kappaksturinn í Barein í Formúlu 1 eftir frábæran endasprett þar sem Valeri Bottas sótti hart að honum.
„Dekkin voru búin. Algjörlega búin. Mamma mía,“ sagði Vettel í talstöðvarbúnaðinn í bílnum eftir að hann kom í mark. Ef hringirnir hefðu verið 58 en ekki 57 hefði Bottas mögulega náð að stela sigrinum því hann át upp muninn á síðustu tíu hringjunum.
Liðsfélagi Bottas á Mercedes, Lewis Hamilton, varð í þriðja sætinu.
Vettel hefur nú unnið fyrstu tvö mót tímabilsins og það hefur ekki gerst á þessari öld að sá ökuþór sem vinni fyrstu tvo kappakstrana endi ekki upp sem heimsmeistari.
Kimi Raikkonen, sem byrjaði keppnina í öðru sæti, þurfti að hætta keppni eftir að hann keyrði á starfsmann Ferrari við dekkjarskipti. Starfsmaðurinn var fluttur á sjúkrahús og er ekki vitað um ástand hans, hann er þó ekki talinn vera í lífshættu.
Vettel hékk á sigrinum í háspennu í Barein
