Lífið

Íslendingar ljá vinsælum tölvuleik rödd sína

Stefán Ó. Jónsson skrifar
God of War leikirnir hafa selst í milljónum eintaka. Mikil eftirvænting ríkir fyrir nýjasta útspilinu.
God of War leikirnir hafa selst í milljónum eintaka. Mikil eftirvænting ríkir fyrir nýjasta útspilinu.
Íslenski kammerkórinn Schola cantorum sér til þess að spilendur nýjasta leiksins í God of War-tölvuleikjabálknum fái víkingaandann beint í æð.

Útgáfufyrirtækið Sony hefur sent frá sér myndband þar sem tónlistin í tölvuleiknum er kynnt til sögunnar. Það má sjá hér að neðan en þar ræðir Peter Scaturro, aðaltónsmiðurinn, um tilraunir sínar til að ljá leiknum ósvikið yfirbragð.

Hinir vinsælu God of War-tölvuleikir hafa til þessa stuðst við gríska goðafræði en nýjasti leikurinn í röðinni, sem kemur út þann 20. apríl, mun kynna heiðnu guðina til leiks.

Af þeim sökum var talið ótækt að bakgrunnstónlist leiksins væri latínuskotin og því brugðið á það ráð að fá kór til að syngja á gamalli norrænu. Það verkefni féll í skaut kammerkórsins Schola cantorum, sem sungið hefur við Hallgrímskirkju við góðar undirtektir.

„Íslenska nútímans hefur ekkert breyst mikið síðastliðin þúsund ár svo að hún er mjög lík gömlu norrænunni. Þrátt fyrir það er smá munur þannig að við réðum málfræðing á Íslandi til að aðstoða okkar við að þýða frá ensku yfir í norrænum,“ útskýrir Scaturro.

Spjall við Scaturro og hljóðdæmi má heyra í myndbandinu hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×