Innlent

Dagmóðir dæmd í níu mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. vísir/hanna
Dagmóðir á höfuðborgarsvæðinu var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmd í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og brot á barnaverndarlögum gagnvart 20 mánaða barni sem var í umsjá hennar haustið 2016.

Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef dómstólanna en fyrst var greint frá málinu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari í málinu, staðfestir í samtali við Vísi að konan hafi verið dæmd í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára.  

Konan neitaði sök í málinu en dómurinn taldi sannað að hún hefði gerst sek um brot gegn 2. málsgrein 218. greinar almennra hegningarlaga sem fjallar um sérstaklega hættulega líkamsárás. Þá var hún einnig dæmd fyrir brot gegn 98. grein barnaverndarlaga sem fjallar um brot umsjáraðila gagnvart barni.

Uppfært klukkan 19:04: Í sjónvarpsfréttum RÚV var nánar fjallað um málið. Þar kom fram að konan hefði starfað áfram sem dagforeldri í sex mánuði eftir að málið kom upp haustið 2016 en hún lét af störfum í apríl í fyrra. Hún hafði þá starfað sem dagmóðir í rúm átta ár en áður en málið sem hún var dæmd fyrir kom upp höfðu aldrei borist neinar kvartanir vegna starfa hennar. Auk hins skilorðsbundna dóms var konan dæmd til að greiða hálfa milljón í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×