Erlent

Forseti Perú segir af sér vegna atkvæðakaupa

Kjartan Kjartansson skrifar
Kuczynski var kjörinn forseti árið 2016. Fallist þingið á afsögn hans tekur varaforseti hans við embættinu.
Kuczynski var kjörinn forseti árið 2016. Fallist þingið á afsögn hans tekur varaforseti hans við embættinu. Vísir/AFP
Hneykslismál sem tengist atkvæðakaupum hefur fellt Pedro Pablo Kuczynski, forseta Perú. Hann tilkynnti um afsögn sína í dag en neitaði að hafa gert nokkuð rangt. Ákæra vofði yfir honum í þinginu á morgun.

Kuczynski hefur átt í vök að verjast frá því að myndband kom í ljós sem sýndi bandamenn forsetans bjóða stjórnarandstöðuþingmönnum fé gegn því að greiða atkvæði gegn ákærunni.

Forsetinn tilkynnti um afsögn sína í sjónvarpsávarpi í dag. Þrátt fyrir að hann neitaði sök sagðist hann ekki vilja hindra þróun landsins. Fullyrti hann að átt hefði verið við myndbandið til þess að koma sök á hann.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að atkvæði verði greidd í þinginu um afsögn forsetans á morgun. Þar ræður stjórnarandstaðan ríkjum og þykir ekki ljóst hvort þingmenn hennar fallist á afsögnina eða hvort þeir haldi einfaldlega áfram með ákæruna gegn forsetanum.

Sakaður um að náða Fujimori til að komast undan ákæru í desember

Kuczynski stóð af sér aðra ákæru vegna spillingar í þinginu í desember. Ákæran varðaði meintar ólöglegar greiðslur sem Kuczynski þáði frá brasilísku verktakafyrirtæki. Hann naut óvænt stuðnings tíu þingmanna hægriflokks úr stjórnarandstöðunni sem ákváðu á elleftu stundu að sitja hjá þegar atkvæði voru greidd um ákæruna.

Aðeins nokkrum dögum síðar náðaði Kuczynski Alberto Fujimori, fyrrverandi forseta Perú, af heilsufarsástæðum. Fujimori var þá að afplána tuttugu og fimm ára fangelsisdóm vegna mannréttindabrota og spillingar.

Stjórnarandstæðingar sökuðu Kuczynski þá um að náða Fujimori í skiptum fyrir stuðning þingmanna úr flokki Keiko Fujimori, dóttur fyrrverandi forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×