Innlent

Umhverfisstofnun lokar svæði á Skógaheiði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sjá má er svæðið sem um ræðir illa farið.
Eins og sjá má er svæðið sem um ræðir illa farið. Umhverfisstofnun
Umhverfisstofnun hefur gripið til þess ráðs að loka svæði á Skógaheiði vegna ágangs ferðamanna en stór hluti þeirra ferðamanna sem koma til að skoða Skógafoss ganga upp á heiðina.

Í frétt á vef stofnunarinnar segir að vegna hlýinda og mikillar vætu síðustu daga er álag á gönguslóða og umhverfi hans við Skógaheiði ofan við Fosstorfufoss gríðarlegt.

„Umrætt svæði  er hluti af gönguleið um Fimmvörðuháls og hefst lokunarsvæðið þar sem malarstígur endar, um 650 metra frá útsýnispalli ofan við Skógafoss. Umhverfisstofnun hefur gripið til þess ráðs að loka svæðinu vegna aurbleytu frá og með morgundeginum, 24. mars uns bót verður á. Lokunin er annars vegar framkvæmd af öryggisástæðum og hins vegar til að vernda gróður umhverfis gönguslóðann.

Stefnt er að því að endurskoða lokunina eigi síðar en innan tveggja vikna eða fyrr ef ástand breytist. Lokunin er samkvæmt 25 gr. laga um náttúruvernd,“ segir í frétt á vef Umhverfisstofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×