Erlent

NATO vísar Rússum á brott

Samúel Karl Ólason skrifar
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Vísir/AFP
Forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins hafa ákveðið að fækka rússneskum erindrekum í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel. Sjö verður vísað á brott og þremur til viðbótar, sem áttu að hefja störf í höfuðstöðvunum fá ekki að mæta. Þá hefur bandalagið fækkað eigin starfsmönnum í Moskvu um tíu.

Í yfirlýsingu frá Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að ákvörðunin hafi verið tekin með tilliti til samstilltra aðgerða fjölda ríkja í gær og í dag. Um 140 rússneskum erindrekum, sem í mörgum tilfellum eru sagðir vera njósnarar, hefur verið vísað frá minnst 25 ríkjum.

Tilefni brottvísananna er taugaeitursárás á Sergei Skripal, fyrrverandi rússneskan njósnara sem sveik Rússland og starfaði fyrir Bretlandi, í byrjun mánaðarins.

„Þetta sendir skýr skilaboð til Rússlands um að óásættanleg og hættuleg hegðun hefur afleiðingar,“ segir Stoltenberg. Hann sagði aðgerðirnar endurspegla alvarleika málsins.

Í yfirlýsingunni segir að árásin á Skripal, sem Bretar segja að Rússar hafi gert, sé í fyrsta sinn sem taugaeitri sé beitt innan landamæra NATO-ríkja.


Tengdar fréttir

Ástralar vísa rússneskum erindrekum úr landi

Ástralía hefur nú bæst í hóp þeirra ríkja sem reka rússneska erindreka úr landi vegna gruns um að Rússar hafi eitrað fyrir Skripal-feðginunum í bænum Salisbury á Englandi á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×