Innlent

Sunna Elvíra er væntanleg til landsins á næstu dögum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sunna Elvíra á sjúkrahúsinu á Malaga.
Sunna Elvíra á sjúkrahúsinu á Malaga. Vísir/Egill
Farbanni Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur hefur verið aflétt og er nú byrjað að undirbúa flutning hennar til Íslands. MBL sagði fyrst frá. Páll Kristjáns­son lögmaður Sunnu Elvíru staðfestir þetta í samtali við Vísi og segir að þetta sé mikill léttir. Sunna Elvíra verður flutt hingað með sjúkraflugi og segir Páll að hún voni að það verði sem allra fyrst. 

„Ég veit voða lítið annað en að það er búið að sleppa henni og það virðist vera búið að loka málinu hvað hana varðar,“ segir Páll í samtali við Vísi. Lögreglan á Spáni hefur því aflétt farbanninu. „Næstu skref eru að klára flutninginn heim.“

Páll segir að það sé erfitt að segja nákvæmlega hvaða dag Sunna verður flutt til Íslands með sjúkraflugi.

„Bara eins fljótt og hægt er, fyrr en seinna“

Fjölskylda Sunnu Elvíru er nú hjá henni á Spáni og er verið að gera ráðstafanir varðandi það núna.

„Þetta hefur mjög jákvæð áhrif á hana. Hún er í ágætis yfirlæti þarna í dag en þetta er fyrst og fremst bara andlegt því að hún vill komast heim.“

Óvissan var erfið

Mál Sunnu Elvíru hefur vakið athygli flestra landsmanna frá því hún féll niður af svölum á heimili sínu á Malaga á Spáni þann 17. janúar síðastliðinn. Sunna Elvíra hlaut mænuskaða í því slysi og er lömuð fyrir neðan brjóst, hún hefur nú verið úrskurðuð lömuð fyrir lífstíð. Eiginmaður hennar, Sigurður Kristinsson, var handtekinn við komuna til Íslands eftir að hún slasaðist vegna gruns um aðild að „Skáksambandsmálinu“ svokallaða og var Sunna Elvíra sett í farbann í kjölfarið. 

Páll segir að þessar fréttir hafi verið mikill léttir fyrir Sunnu Elvíru og hennar nánustu.

„Líka varðandi óvissu um réttarstöðu og annað slíkt, að það sé búið að loka málinu hvað hana varðar. Að því leytinu til virðist hún ekki haft neina aðkomu að þessu máli.“

Þegar Sunna Elvíra kemur til Íslands verður hún flutt strax á sjúkrahús og mun halda áfram með sína endurhæfingu.

„Hún hefur alltaf verið í sambandi við íslenska lækna og nú taka þeir bara við.“



Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×