Erlent

Rússar ætla að víkja breskum erindrekum úr landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússland.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússland. Vísir/AFP
Yfirvöld Rússlands munu vísa breskum erindrekum úr landi á næstunni. Það verður gert eftir að Bretar vísuðu 23 erindrekum, sem Theresa May sagði vera njósnara, í kjölfar taugaeitursárásar á fyrrverandi rússneskan njósnara og dóttur hans í Bretlandi, sem yfirvöld Bretlands hafa sakað Rússa um.

Samkvæmt frétt BBC sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, við blaðamenn þar í landi að breskum erindrekum yrði „pottþétt“ vísað úr landi og það myndi gerast brátt.

Sjá einnig: Bretar ætla að reka 23 rússneska njósnara úr landi



Yfirvöld Bretlands segja taugaeitrið hafa verið framleitt í Rússlandi. Eitrið er sagt tilheyra eiturflokknum Novichok en ekki hefur verið gefið út nánar hvaða eitur var notað.

„Geðveikar“ ásakanir

Rússar þvertaka fyrir að hafa komið að morðtilrauninni og hafa farið fram á að fá aðgang að sönnunargögnum Breta. Utanríkisráðuneyti Rússlands sagði í morgun að ásakanir Breta væru „geðveikar“ og þær beindust gegn allri rússnesku þjóðinni.



Maria Zakharova, talskona utanríkisráðuneytisins, sagði að enn væri verið að vinna í mótaðgerðum Rússlands. Hún sakaði Breta um að neita að vinna með Rússum og að þeim hefði borist nein sönnunargögn eins og til dæmis sýni af taugaeitrinu sem notað var.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, sakaði yfirvöld Rússlands um að stæra sig af árásinni og að þeir hefðu sérstaklega notað eitur frá tímum Sovétríkjanna til að senda andstæðingum Vladimir Putin, forseta Rússlands, viðvörun.



„Rússland er eina landið sem vitað er að hafi þróað þetta taugaeitur. Ég er hræddur um að sönnunargögnin bendi eindregið á Rússland,“ sagði Johnson. Þá sagði hann að kaldhæðin og sjálfumglöð svör Rússlands bentu enn fremur til sektar Rússlands.

„Á sama tíma og þeir neita eru þeir að stæra sig af árásinni.“

Fangelsaður í Rússlandi fyrir svik

Auk þess að vísa Rússunum úr landi ætla Bretar að auka eftirlit með einkaflugum Rússa til Bretlands og tollgæslu gagnvart vörum frá Rússlandi. Að frysta eigur rússneska ríkisins sem sönnunargögn benda til að hafa verið notaðar til að ógna lífum eða eigum Breta og íbúa Bretlands. Þar að auki munu ráðherrar og konungsfjölskylda Bretlands sniðganga HM í sumar.

Sergei Skripal var fangelsaður í Rússlandi árið 2006 fyrir að hafa útvegað leyniþjónustu Bretlands nöfn útsendara Rússa í Evrópu. Hann var frelsaður árið 2010 þegar Bandaríkin og Rússland skiptust á njósnurum sem höfðu verið handsamaðir. Rússar slepptu fjórum njósnurum og Bandaríkin tíu.

Feðginin Sergei og Yulia Skripal urðu fyrir eiturefnaárás á sunnudaginn 4. mars og liggja enn þungt haldin á sjúkrahúsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×