Innlent

Fær bætur eftir að hún fauk í ofsaveðri í Reynisfjöru

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úr Reynisfjöru. Fólkið á myndinni tengist fréttinni ekki.
Úr Reynisfjöru. Fólkið á myndinni tengist fréttinni ekki. Vísir/Friðrik
Kona, sem slasaðist í Reynisfjöru í hópferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækis, fær helming tjóns síns bættan úr ábyrgðartryggingu fyrirtækisins. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum (ÚNVá).

Atvik málsins voru þau að konan slasaðist þegar hún fauk til í ofsaveðri í Reynisfjöru þann 30. október 2014. Tókst hún á loft í einni vindhviðunni og slasaðist meðal annars illa á hendi. Taldi konan að glapræði hefði verið af bílstjóra og leiðsögumanni að halda för áfram í ljósi þess hvassviðris sem var þann dag.

Í málinu lá fyrir að vindur var yfir 20 m/s og fór yfir 35 m/s í hviðum á þeim tíma sem slysið átti sér stað. Við Skógafoss höfðu fararstjórar samband við framkvæmdastjóra fyrirtækisins og var afráðið að halda för áfram þrátt fyrir veðurofsann.

Þegar í Reynisfjöru var komið fór fararstjórinn úr rútunni. Bar hún því við að hún hefði þá þegar séð hve slæmt veður var og reynt að smala fólki aftur inn í rútuna. Sönnunargildi þess framburðar var metið með hliðsjón af því að vitnisburðurinn var ódagsettur og löngu eftir að slysið átti sér stað.

Var það mat ÚNVá að skipuleggjendur og stjórnendur ferðarinnar hefðu sýnt af sér gáleysi með því að hleypa fólki út úr rútunni og niður í fjöru. Bæru þeir því ábyrgð á tjóninu. Konan var hins vegar látin bera helming tjóns síns sjálf þar sem hún hefði kosið að taka áhættuna á að fara niður í fjöru þrátt fyrir veðurhaminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×