Erlent

Norður-Kóreumenn yfirgefa Svíþjóð

Samúel Karl Ólason skrifar
Ri Yong-ho í Svíþjóð.
Ri Yong-ho í Svíþjóð. Vísir/AFP
Þriggja daga fundi utanríkisráðherra Norður-Kóreu og Svíþjóð lauki í dag en honum var ætlað að undirbúa fund Donald Trump og Kim Jong-un. Ri Yong-ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, mætti til Svíþjóðar á fimmtudaginn þar sem hann hefur rætt við Margot Wallstrom, utanríkisráðherra Svíþjóðar.

Trump ítrekaði í gær að hann væri tilbúinn til að hitta Kim eftir að honum barst fundarboð frá Norður-Kóreu fyrr í mánuðinum. Enn sem komið er hefur Norður-Kórea ekki opinberlega svarað Trump og staðfest að af fundinum verði.

Samkvæmt frétt Reuters sendi Utanríkisráðuneyti Svíþjóðar út tilkynningu þar sem fram kom að ráðherrarnir hefðu rætt leiðir til að binda enda á deilurnar á Kóreuskaganum með friðsömum hætti og sömuleiðis tengsl ríkjanna.



„Svíþjóð ítrekaði að Norður-Kórea þyrfti að binda enda á kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlun ríkisins í samræmi við ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna,“ segir í tilkynningunni.

Svíþjóð er eitt af fáum vestrænum ríkjum sem er með sendiráð í Norður-Kóreu og sinna þeir meðal annars störfum fyrir Bandaríkin í gegnum sendiráð sitt. Til stóð að fundurinn myndi bara standa yfir til föstudags en hann var framlengdur og segir heimildarmaður Reuters að vel hafi gengið.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×