Erlent

Segir taugaeitrið mögulega á ábyrgð breskrar rannsóknarstofu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vladimir Chizhov, sendiherra Rússlands hjá Evrópusambandinu.
Vladimir Chizhov, sendiherra Rússlands hjá Evrópusambandinu. Vísir/AFP
Sendiherra Rússlands hjá Evrópusambandinu segir að taugaeitrið, sem notað var við árás á rússneskum fyrrverandi njósnara og dóttur hans fyrr í mánuðinum, gæti verið upprunnið á breskri rannsóknarstofu.

Sendiherrann, Vladimir Chizhov, hélt því enn fremur fram í viðtali við breska ríkisútvarpið að aðkoma Rússa að árásinni væri engin. Þá sagði hann Rússa ekki eiga birgðir af eitrinu og að Porton Down-rannsóknarstofan, þar sem eitrið gæti átt uppruna sinn, væri staðsett í einungis 12 kílómetra fjarlægð frá árásarstaðnum.

Aðspurður sagði Chizhov þó ekki hafa nein haldbær sönnunargögn fyrir því að eitrið ætti rætur sínar að rekja til Porton Down. Rannsóknarstofan er rekin af bresku ríkisstjórninni og sinnir háleynilegum verkefnum.

Sjá einnig: Sendiherra Rússlands á Íslandi: „Rússland tengist á engan hátt atburðunum í Salisbury“

Breska ríkisstjórnin sagði ummæli Chizhov „þvætting“ og að í þeim væri ekki „arða af sannindum.“

Sergei Skripal, rússneskur fyrrverandi njósnari, og dóttur hans Yuliu Skripal var byrlað taugaeitur þann 4. mars síðastliðinn. Þau fundust meðvitundarlaus á bekk í Salisbury í Wiltshire í suðurhluta Englands og liggja nú þungt haldin á sjúkrahúsi.

Rússar lýstu því yfir í gær að þeir hyggist vísa 23 breskum erindrekum úr landi. Um er að ræða svar Rússlands við brottvísun 23 rússneskra erindreka úr Bretlandi í kjölfar taugaeitursárásarinnar. Eru Rússar taldir standa að baki árásinni á Skripal-feðginin.


Tengdar fréttir

Rússar vísa 23 breskum erindrekum úr landi

Um er að ræða svar Rússlands við brottvísun 23 rússneskra erindreka úr Bretlandi í kjölfar taugaeiturssárásarinnar gegn rússneskum njósnara og dóttur hans í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×