Erlent

Þögn frá vesturveldunum vegna sigurs Pútíns

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vladimir Pútín hefur verið við völd í Rússlandi, meira og minna frá árinu 2000.
Vladimir Pútín hefur verið við völd í Rússlandi, meira og minna frá árinu 2000. Vísir/AFP
Leiðtogar víða um heim hafa óskað Vladimir Pútín, forseta Rússlands, til hamingju með sigurinn í forsetakosningunum þar í landi. Leiðtogar vestrænna ríkja hafa hins vegar ekki enn tjáð sig um úrslit kosninganna. BBC greinir frá.

Sigur Pútín var afgerandi og hlaut hann 76 prósent atvæða í kosningunum. Vakið hefur athygli að sigur Pútín nú er stærri en árið 2012 þegar síðast var kosið. Þá hlaut hann 64 prósent atkvæða.

Xi Jinping, forseti Kína, óskaði kollega sínum í Rússlandi innilega til hamingju með sigurinn og lagði áherslu á að samband Kína og Rússland hafi aldrei verið betra en nú. Leiðtogar Hvíta-Rússlands, Bolívíu, Venesúela, og Kúbu óskuðu Pútín einnig til hamingju með sigurinn.

Leiðtogar vestrænna ríkja hafa sem fyrr ekki tjáð sig um úrslitin en vaxandi spenna er í samskiptum vestrænna ríkja við Rússland, ekki síst eftir meint afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016. Þá hafa Rússar einnig verið sakaðir um að hafa staðið að baki taugaeitursárás á Sergei Skripal, og dóttur hans, en Skripal starfaði á árum áður sem rússneskur njósnari.

Vísir/Graphicnews
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, vildi ekki tjá sig um úrslit kosninganna er hún mætti á fund utanríkisráðherra ESB í Brussel í dag. Þess í stað fordæmdi hún taugaeitursárásina á Skripal og dóttur hans.

Úrslit kosninganna í Rússlandi koma ekki á óvart en fastlega var gert ráð fyrir öruggum sigri Pútín. Næsti andstæðingur hans hlaut þrettán prósent.

Lögmæti kosninganna hefur verið dregin í efa en myndbönd frá kjörstöðum gefa til kynna að ekki hafi allt verið með felldu. Golos, sjálfstæður eftirlitsaðili með kosningunum, hefur bent á hundruð dæma sem þykja sýna að eitthvað óeðlilegt hafi átt sér stað.

Meðal þess er þetta myndband sem tekið var á kjörstað þar sem sjá má blöðrur fara fyrir myndavél sem beint var að talningarmönnum á kjörstað.

Ella Pamfilova, formaður yfirkjörstjórnar Rússlands, segir þó að fjöldi kvartanna sé helmingi færri en síðast þegar kosið var, og enginn þeirra teljist alvarleg.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×