Skoðun

Misvísandi málflutningur Þráins

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Það er engum blöðum um það að fletta að margir hafa sterkar skoðanir á umskurði sveinbarna. Sá siður er framandi í íslensku samfélagi og fáum hér að skapi. Hins vegar hefur umskurður verið við lýði um þúsundir ára víða um heim og á sér sterkar rætur í hefðum, trú, menningu eða siðum í margvíslegum menningarheimum. Árlega eru um 1300 þúsund sveinbörn umskorin í Bandaríkjunum einum og um 500 þúsund í Íran svo tvö dæmi séu tilfærð. Talið er að nærri 40% drengja í heiminum séu umskorin. Málið er umdeilt víðar en hér á landi og oft er hart deilt. Í kjölfar þess að lagafrumvarp var lagt fram á Alþingi hófst áköf og á köflum tilfinningaþrungin umræða.

Heilsufarsrök hljóta að vega þungt í mati á umskurði á hvorn veg sem þau rök falla. Af þeim ástæðum verður opinber umræða um málið mikið um þann þátt málsins. Stofnanir á borð við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út skýrslur um umskurð drengja. Stofnunin Sundhedstyrelsen í Danmörku sömuleiðis og auk þess stofnanir, háskólar og samtök lækna víð um heim og þar ber hæst samtök barnalækna í Bandaríkjunum. Engin framangreindra stofnana og samtaka leggst gegn umskurði. Gengið er út frá að aðgerðin sé framkvæmd af fagfólki við góðar aðstæður. Hins vegar er mismunandi hver og hve mikil gagnsemin er talin vera. Svo eru til ýmsar skýrslur og álit sem mæla gegn umskurði. Nefna má hér á landi nýleg álit frá læknum og hjúkrunarfræðingum sem leggjast gegn þessum verknaði. 

Í umræðu skiptir máli að draga fram staðreyndir, gera grein fyrir staðhæfingum og rökstuðningi fyrir þeim og skoðunum. Sérstaklega er mikilvægt að skila vel á þarna á milli. Heilbrigðisstarfsfólk hefur þekkingar sinnar vegna meiri áhrif en aðrir en að sama skapi verður það að gæta þess að halda aðgreindum faglegum rökum og gildishlöðnum skoðunum. Þráinn Rósmundsson, barnaskurðlæknir hefur blandað sér í umræðuna með grein á visir.is. Hann gerir grein fyrir sínum skoðunum svo sem eðlilegt er. Hins vegar Þráinn ýmist að vitna í eigið framlag án þess að gera grein fyrir því eða gefa frekar ónákvæma lýsingu á öðrum rökstuðningi sem hann færir fram. Í þessu máli eru mjög skiptar skoðanir meðal lækna og annarra fagstétta. Fyrir leikmenn er því enn mikilvægara að skýrt sé um hvað læknar deila og hvers vegna. Í því felst kostur almennrar umræðu.

Nokkur atriði í grein Þráins Rósmundssonar þarf að gera athugasemd við og eftir atvikum leita eftir frekari rökstuðningi við.

Stefna en ekki grein

Þráinn getur um grein frá Bandaríska læknafélaginu, AAP, frá 2012 þar sem sett er fram það álit byggt á fyrirliggjand gögnum að heilsufarslegur ávinningur af umskurði sé meiri en áhætta af aðgerð og það réttlæti aðgengi foreldra að aðgerð á kostnað þriðja aðila. Þarna láðist Þráni að geta þess að greinin er skýrsla læknasamtakanna, studd af samtökum kvensjúkdóma- og fæðingarlækna í Bandaríkjunum og stefna þessar samtaka í málinu. Á þessu er verulegur munur.

Stefnan óbreytt

Í öðru lagi segir Þráinn í grein sinni að umræddri skýrslu hafi verið svarað ári síðar af 40 læknum í vestur Evrópu og öll rökin í fyrri skýrslunni hafi verið hrakin. Án vafa er það skoðun Þráins að öll rök hafi verið hrakin, enda er hann sjálfur einn þeirra sem standa að seinni skýrslunni. Það er hins vegar bara skoðun en ekki staðreynd. AAP hefur ekki breytt stefnu sinni né hin læknasamtökin sem að stefnunni standa eftir því sem best verður séð. Það veikir málflutning Þráins að vitna í sjálfan sig sínu máli til stuðnings án þess að láta lesandann vita. Alþjóðlegar stofnanir hafa heldur ekki breytt áður framkomnu mati sínu eftir því sem næst verður komist. Frá sjónarhóli leikmanns er málið þannig vaxið að læknar og að einhveru marki aðrir fræðimenn eru ósammála um heilsufarsþáttinn. Þá skipta rökin máli sem hvor aðili um sig ber fram og annar aðilinn getur ekki talað fyrir báða.

Menningarhefðin hefur áhrif

Þráinn og félagar hans halda fram í grein sinni að álit bandarísku læknanna endurspegli menningarlegu hefðina þar í landi og sé af þeim sökum jákvæðara í garð umskurðar en efni standa til. Á móti því er bent að evrópsku læknarnir eru allir úr annarri menningu hvað þetta varðar og forsprakki hópsins Morten Frisch er sagður í einni umfjöllum um málið hafa viðurkennt að mat Evrópumannanna dragi líka dám af eigin menningu. Þetta atriði sýnir kannski hvað best hvað ýmislegt annað en bara heilsufarsleg atriði geta haft mikil áhrif á skoðanir og mat, jafnvel vísindamanna og sveigt álit þeirra að því sem samrýmist hefðum, siðum og menningu þeirra, að ekki sé talað um trúarbrögð.

Mismunandi lýsingarorð

Þráinn Rósmundsson notar sterk lýsingarorð um framkvæmd og afleiðingar aðgerðarinnar. Lýsing í skýrslum stofnana og samtaka sem ekki mæla gegn umskurði og jafnvel telja aðgerðina að einhverju leyti til gagns er á allt annan veg. Almenningur á erfitt með að henda reiður á staðreyndum málsins þegar þeir sem eiga að teljast fagmenn gefa mjög misvísandi lýsingu sem virðist ráðast af því hvorum megin þeir standa í málinu. Yfirlýsingar um limlestingu og mikinn sársauka skipta auðvitað miklu máli í huga fólks og þess vegna er hætt við því að aðilar máls ýmist ýki eða dragi úr þeim þáttum til þess að vinna stuðning við skoðun sína. Það verður að segjast eins og er að aðgerð sem gerð er árlega á 15 – 20 milljónum sveinbarna og hefur verið gerð um þúsundir ára getur varla verið í flokki limlestinga og mjög sársaukafullra aðgerða enda bera skýrslur opinberra stofnana og alþjóðasamtaka það ekki með sér. Það er hins vegar ekki þar með sagt að fallist sé á þörf fyrir eða tilgang aðgerðar. 

Vísindagrein um dauðsföll 

Það sem Þráinn þarfi kannski helst að skýra betur er fullyrðingin „í vísindagrein frá Bandaríkjunum frá 2010 kemur fram að yfir 100 drengir deyja árlega eftir umskurði.“ Þarna er væntanlega vitnað til greinar Dan Bollinger sem birtist í tímaritinu Thymos: Journal of Boyhood Studies. Þráinn segir um greinina að þar komi fram að yfir 100 drengir deyi árlega. Bollinger segir hins vegar að talan sé mat hans á fjöldanum. Það er tvennt ólíkt, staðhæfing eða mat. Þessi grein er alls ekki óumdeild og Bollinger hefur sætt umtalsverðri gagnrýni, einmitt fyrir mat sitt á þeim gögnum sem hann byggði grein sína á. Gagnrýnendur Bollinger segja að hann skýri 25% hærri dánartíðni nýfæddra sveinbarna en meyja í Bandaríkjunum með því að sveinbörnin hafi dáið af völdum umskurðar. Það komi hins vegar ekki fram í gögnunum heldur sé hans ályktun. Birt hefur verið samantekt frá öðrum löndum þar sem umskurður er fátíður þar sem svipaður munur er á dánartíðni eftir kynjum og í Bandaríkjunum. Munurinn er nánast sá sami í Danmörku og hærri í Noregi. Ályktanir Bollinger standa því völtum fótum. Til eru þeir sem lesa úr þessum heilsufarsupplýsingum að 0 – 3 börn kunni að deyja árlega af völdum umskurðar í Bandaríkjunum.

Hin hreina rödd

Að öllu samanlögðu er grein Þráins misvísandi í nokkrum atriðum. Fyrir liggur að hann er þátttakandi í heitri umræðum um málið og hefur skipað sér í annan hópinn. Þráinn deilir við kollega sína í læknastétt og er alls ekki óvilhallur í umræðunni. Það gerir hann auðvitað ekki ómarktækan, öðru nær. Það á líka við um þá lækna sem eru Þráni ósammála, þeir eru heldur ekki ómarktækir, né heldur stofnanir og samtök sem láta sig heilsufarsmál varða víða um heim. 

Mín niðurstaða eftir nokkra yfirlegu og kynningu á málinu er að menning, siðir og jafnvel trú séu sterkasta aflið í skoðanamyndun og ennfremur að bæði fylgjendur umskurðar og andstæðingar beiti túlkun á heilsufarsupplýsingum sínum málstað til framdráttar. Af þeim sökum þarf að taka ýmsar fullyrðingar sem settar eru fram af varúð og varkárni. Þegar lagt til á Alþingi að gera heilu menningarheimana að glæpafólki sem sitja eigi 6 í fangelsi er full ástæða til að staldra við og gefa sér tíma til yfirvegaðrar gagnaöflunar og umræðu í framhaldinu. Það er of mörg vond dæmi til í mannkynssögunni um þá sem litu á sig sem handhafa sannleikans og þess umkomna að vísa hinum óhreinu úr samfélagi hinna hjartahreinu.  

 

 

 

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×