Erlent

Fyrrverandi njósnari í lífshættu eftir að hafa komist í snertingu við óþekkt efni

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Samkvæmt lögreglunni í Wiltshire er rannsóknin á frumstigi.
Samkvæmt lögreglunni í Wiltshire er rannsóknin á frumstigi. Vísir/Getty
Fyrrverandi rússneskur njósnari liggur nú þungt haldinn á spítala í Bretlandi eftir að hann komst í snertingu við óþekkt efni í verslunarmiðstöð í borginni Salisbury í suðurhluta Bretlands í gær.

Maðurinn heitir Sergei Skripal, er 66 ára gamall, og var árið 2006 dæmdur í 13 ára fangelsi fyrir að njósna fyrir bresk yfirvöld. Hann var fundinn sekur um að hafa veitt bresku leynilögreglunni, MI6, upplýsingar um rússneska njósnara í Evrópu.

Skripal var einn af fjórum föngum sem var sleppt úr haldi í Moskvu árið 2010 í skiptum fyrir 10 bandaríska njósnara og settist hann seinna að í Bretlandi.

Skripal liggur nú þungt haldinn á spítala í Salisbury ásamt konu sem talin er vera á fertugsaldri. Loka þurfti nokkrum stöðum í miðborg Salisbury í aðgerðum lögreglu í gær og var bráðadeild spítalans einnig lokað.

Ekki vitað hvaða efni er um að ræða

Lögreglan rannsakar nú hvort eitthvað glæpsamlegt hafi átt sér stað en tilkynning barst seinnipart dags í gær um að tvær manneskjur hefðu veikst í verslunarmiðstöð í miðbæ Salisbury.

Ekki er enn vitað hvers konar efni þau komust í snertingu við en í samtali við BBC segir sjónarvottur að þau hafi bæði virst hafa innbyrt „eitthvað mjög sterkt.“

„Á bekknum var par, eldri maður og yngri konar. Hún hallaðist að honum, það leit út fyrir að hún hefði mögulega misst meðvitund. Hann gerði skrítnar hreyfingar með höndunum og leit upp til himins.“

Í tilkynningu frá lögreglunni í Wiltshire segir að Skripal og konan hafi ekki verið með neina sjáanlega áverka en að þau hafi misst meðvitund. Þá sagði fulltrúi lögreglunnar að rannsóknin væri enn á frumstigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×