Umfjöllun og viðtöl: Höttur - Njarðvik 74-85 | Skyldusigur Njarðvíkinga á Egilsstöðum

Gunnar Gunnarsson skrifar
Logi Gunnarsson, stjarna Njarðvíkinga.
Logi Gunnarsson, stjarna Njarðvíkinga. vísir/eyþór
Njarðvík tryggði sér í kvöld fimmta sætið í Domino's deild karla í körfuknattleik eftir 74-85 sigur á botnliði Hattar á Egilsstöðum. Njarðvíkingar geta margt bætt í sínum leik.

Lítið var í húfi fyrir liðin, Höttur löngu fallinn og Bandaríkjamaðurinn Kelvin Lewis, stigahæsti leikmaður deildarinnar, farinn aftur til Finnlands. Njarðvíkingar voru í fimmta sætinu fyrir leikinn, jafnir nágrönnum sínum í Grindavík að stigum. 

Höttur byrjaði leikinn betur og var yfir framan af fyrsta leikhluta. Þá náðu Njarðvíkingar að snúa leiknum sér í vil. Því forskoti héldu þeir mest allan leikinn, reyndar komust Hattarmenn stuttlega yfir í öðrum leikhluta. Þeir sýndu þolinmæði í sókninni í fjarveru Lewis og beittu langskotum með ágætum árangri. Njarðvík var hins vegar alltaf með yfirhöndina og var yfir 34-39 í hálfleik.

Í þriðja leikhluta náðu Njarðvíkingar að auka ákafann, einkum reyndist þeim vel að mæta bakvörðum Hattar á eigin vallarhelmingi eftir öll innköst. Þar með byggðu Njarðvíkingar upp tíu stiga forskot.

Höttur náði að saxa á það með góðri byrjun í fjórða leikhluta. Njarðvíkingar svöruðu því strax og héldu sinni tíu stiga forustu út leikinn. Höttur reyndi að pressa í blálokin en það breytti engu.

Af hverju vann Njarðvík?

Einfaldlega betra lið þótt aldrei væri langt á milli. Þriðji leikhlutinn stóð upp úr, þá sýndi Njarðvík mesta ákefð og bestu vörnina. Að pressa Hattarmenn á eigin vallarhelmingi kom þeim í vandræði.

Hvað gekk illa?

Þriggja stiga skot Njarðvíkur í fyrri hálfleik. Liðið reyndi tíu, ekkert þeirra fór ofan í. Í seinni hálfleik skoraði liðið úr tveimur af fjórum. Vilhjálmur Theodór Jónsson skaut báðum ofan í. Hann átti ágætan dag, var stigahæstur Njarðvíkingar með 23 stig.

Hvað gekk vel?

Langskot Hattar gengu ágætlega, liðið skoraði úr 11 þriggja stiga skotum. Fyrst og fremst var það samt þolinmæðin, fjórum sinnum skoraði Höttur um leið og skotklukkan rann út, stundum úr að því er virtist vonlausum færi. Mörg betri klikkuðu bæði fyrr í vetur og í kvöld.

Hvað gerist næst?

Höttur er fallinn í annað sinn á þremur árum. Framundan er líf í jafnri fyrstu deild við nýjar reglur um erlenda leikmenn. Njarðvík fer inn í úrslitakeppnina og mætir þar Íslandsmeisturum KR sem eiga heimaleikjaréttinn. Sú rimma byrjar strax eftir viku.

Höttur-Njarðvík 74-83 (16-20, 18-19, 19-26, 21-20)

Höttur:
Andrée Fares Michelsson 15/5 stoðsendingar, Mirko Stefan Virijevic 15/9 fráköst, Hreinn Gunnar Birgisson 12/4 fráköst, Nökkvi Jarl Óskarsson 9, Vidar Orn Hafsteinsson 9, Sigmar Hákonarson 7, Brynjar Snær Grétarsson 5, Bergþór Ægir Ríkharðsson 2/4 fráköst.

Njarðvík: Vilhjálmur Theodór Jónsson 23/5 fráköst, Terrell Vinson 13/8 fráköst, Kristinn Pálsson 12/5 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 12/10 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 9/8 fráköst, Ragnar Agust Nathanaelsson 7, Ragnar Helgi Friðriksson 4.

Daníel Guðni Guðmundsson er þjálfari Njarðvíkur.Vísr/Andri Marinó
Daníel: Þokkalegur leikur fyrir framhaldið

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, sagðist hafa fengið gott tækifæri til að meta ákveðna þætti í leik síns liðs í sigrinum á Hetti í kvöld.

„Við ætlum að gera atlögu í úrslitakeppninni að titlinum og þetta var fínn leikur upp á að meta ákveðna hluti. Mér fannst frammistaða okkar þolanleg, ekki meira en það. Við áttum mjög erfitt fyrir utan þriggja stiga línuna og skutum bara fjórum slíkum skotum í seinni hálfleik, það gerum við mjög sjaldan.“

„Við fengum opin skot en stundum er eitthvert lok á körfunni. Við reynum að breyta um taktík og sóttum inn að körfunni sem gekk ágætlega. Ég var líka ánægður með framlag leikmanna sem hafa spilað minna í vetur eins og Vilhjálms, Snjólfs og Brynjars.“



Njarðvík lék í kvöld án bakvarðarins Odd Rúnars Kristjánssonar sem var meiddur. „Ég vongóður um að hann verði með okkur það sem eftir er en það er ekki víst,“ sagði Daníel Guðni aðspurður um ástand hans.

Njarðvík mætir KR í úrslitakeppninni og á Reykjavíkurliðið heimaleikjaréttinn. „Við vitum öll hvað KR getur og að mæta því er eins krefjandi og gerist. Við höfum tapað tvisvar fyrir þeim í vetur. Við munum setjast niður og fara yfir okkar leikskipulag í vörn og sókn. Það verður skemmtilegt verkefni en krefjandi.“

Mirko í leik með Hetti í vetur
Mirko undir feldinn

Miðherjinn Mirko Stefán Virijevic segist ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hann haldi áfram að spila körfubolta eftir leiktíðina. Mirko varð 36 ára í síðasta mánuði en hann spilaði fyrst á Íslandi með Snæfelli árið 2000.

„Ég ætla að taka mér frí. Það er of snemmt að ræða hvað gerist á næsta tímabili. Ég er sannarlega að íhuga stöðuna,“ sagði Mirko þegar hann var spurður út í framtíðina að loknum leik Hattar gegn Njarðvík í lokaumferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í kvöld.

Höttur tapaði leiknum með ellefu stigum en liðið var fallið úr úrvalsdeildinni fyrir nokkrum vikum. Liðið átti erfitt uppdráttar fyrir áramót og vann þá ekki leik. „Þetta hefur verið nokkuð sérstakt tímabil, við vorum með þrjá mismunandi bandaríska leikmenn og þegar leikurinn var orðinn góður með Kelvin fór hann til Finnlands. Þegar uppi er staðið getum við sagt við höfum spilað ágætlega og reynt okkar besta.“

Hann bindur vonir við að Hattarliðið haldi áfram á þeirri braut sem það hefur verið og setji stefnuna upp aftur. „Í hópnum eru 5-6 strákar um tvítugt og þeir verða að halda áfram að æfa og spila saman. Viðar Örn hefur unnið gott starf og þessir strákar tekið miklum framförum.“

Mirko hafði ekki mörg orð um leikinn í kvöld. „Ég var ekki nógu sáttur við hann, ekki mína frammistöðu heldur því mér fannst ég geta gert meira. Ég reyndi mitt besta líkt og liðið, við fengum jafnvel séns á að vinna en Njarðvík er með gott lið og ég óska því alls hins besta,“ sagði Mirko sem spilaði með Njarðvík eitt tímabil áður en hann kom til Hattar.

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.Vísir/Eyþór
Viðar Örn: Þýðir ekki að segjast ætla að verða betri og fara í frí

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, vonast til að félagið geti byggt áfram á þeirri reynslu sem það hefur öðlast í úrvalsdeildinni í vetur. Liðið hefur þrisvar spilað í deildinni en í öll skiptin fallið aftur.

„Við ákváðum áður en við féllum að einblína á að bæta leik okkar. Þrátt fyrir tapið í kvöld og gegn KR á sunnudag þá unnum við eftir því plani sem við lögðum upp með og erum orðnir betri. Við erum samt langt í frá nógu góðir til að vera í Domino‘s deildinni og við verðum að finna leiðir sem félag, innan vallar sem utan, til að nálgast það.“

„Við höfum farið tvisvar upp á síðustu þremur árum og í bæði skiptin niður aftur. Það þýðir ekki að fela sig á bakvið óheppni eins og sumir, við erum ekki nógu góð. Við höfum bætt við okkur mikilli reynslu í vetur. Við erum með marga leikmenn sem ekki hafa áður spilað í efstu deild. Sigmar Hákonarson er vaxandi en á enn nokkuð í land og verður að vera duglegur áfram. Hreinn Gunnar hefur ekki verið mörg ár í Domino‘s deildinni, einkum ekki í svona hlutverk eins og hér.“

„Síðan erum við með unga stráka, Bergþór Ægir er á sínu fyrsta tímabili í úrvalsdeild og hefur bætt sig mikið, Andrée er á sínu öðru. Svo vorum við með Brynjar Snær Grétarsson sem kallar sig orðið #BSG12. Hann þarf samt að halda áfram að koma sér í betra stand. Hann er frábær skotmaður en þarf að bæta sig varnarlega.“

„Þetta eru strákar sem vita um hluti sem þeir þurfa að bæta ef þeir ætla sér lengra og geta gert það en ef menn vilja snakkið þá koma aðrir í staðinn.“

Viðar gat annars lítið tjáð sig um hver næstu skref verði. „Við vorum bara að klára. Við vonumst til að geta haldið þessum leikmönnum og bætt við.“

„Það er leikur í unglingaflokki á laugardag. Ef ég fæ að ráða þá höldum við áfram að æfa. Það er of snemmt að hætta áttunda mars. Það er ekki nóg að segjast ætla að verða betri og fara í frí.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira