Erlent

Ríkisstjórn Danmerkur framlengir herta landamæragæslu

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Inger Støjberg, innflytjendamálaráðherra, vill áfram hafa herta landamæragæslu.
Inger Støjberg, innflytjendamálaráðherra, vill áfram hafa herta landamæragæslu. Visir/Ghetty
Ríkisstjórn Danmerkur hefur hafið vinnu við að framlengja herta landamæragæslu en núverandi heimild til hertrar gæslu rennur út þann 12. maí. Þetta kemur fram í samtali DR við Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála í Danmörku. Hert landamæragæsla í Danmörku hefur nú verið í gildi frá upphafi árs 2016.

Alls reka sex Schengen-lönd herta landamæragæslu á undanþágu frá samkomulaginu, en samkomulagið kveður á um frjálsa för fólks yfir landamæri aðildarríkja. Ríkin eru Svíþjóð, Noregur, Þýskaland, Austurríki og Frakkland. Í Schengen samkomulaginu eru fólgin skilyrði um hve lengi lönd geta takmarkað aðgengi á landamærum sínum. Sækja þarf um undanþágur frá Schengen samkomulaginu til framkvæmdastjórnar ESB.

„Við viljum snúa aftur til hins hefðbundna fyrirkomulags Schengen,“ segir Dimitris Avramopoulos, yfirmaður fólksflutningsmála hjá ESB.

Danmörk setti upprunalega á herta landamæragæslu vegna straums flóttafólks í upphafi árs 2016. Dönsk stjórnvöld hafa síðan þá breytt rökstuðningi sínum fyrir að viðhalda hertri landamæragæslu til að forðast tímamörk undanþágunnar. Í dag er undanþágunni viðhaldið á grundvelli hættunnar á hryðjuverkaárás.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×