Körfubolti

Lifandi þjóðsöngur í Laugardalshöll

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Óperusöngkonan Elsa Waage mun syngja Lofsönginn á föstudagskvöld
Óperusöngkonan Elsa Waage mun syngja Lofsönginn á föstudagskvöld
KKÍ býður til körfuboltaveislu á föstudagskvöldið er Ísland mætir Finnlandi í undankeppni HM2019 þar sem þjóðsöngurinn verður meðal annars fluttur í lifandi flutningi.

Leikirnir tveir sem fram undan eru skipta gríðarlega miklu máli í keppninni en Ísland tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum og er á botni riðils F.

Fjölmenni á völlinn er því gríðarlega mikilvægt og til þess að freista fleiri áhorfendur í það að kíkja á völlinn þá var Elsa Waage fengin til þess að flytja Lofsöng Matthíasar Jochumssonar á föstudagskvöldið.

Elsa er sprenglærð söngkona, fyrst frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og svo lauk hún B.M prófi í tónlist frá Catholic University of America og þriggja ára óperunámi í New York.

Þá ætla stuðningsmannasveitir landsins að fjölmenna á völlinn svo stemmingin ætti að vera góð á pöllunum. Leikirnir tveir um helgina verða einnig svanasöngur Loga Gunnarssonar með landsliðinu, svo um að gera að skella sér í Laugardalshöllina og kveðja einn besta körfuboltamann liðinna ára.

Ísland mætti Finnum á Eurobasket síðasta haust þar sem strákarnir töpuðu naumlega 83-79.

Leikur Íslands og Finnlands hefst klukkan 19:45 á föstudaginn og á sunnudaginn mæta íslensku strákarnir Tékkum. Sá leikur hefst klukkan 16:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×