Körfubolti

Sigur Tékka góður fyrir Ísland

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Haukur Helgi Pálsson keyrir upp að körfu Búlgara í leik liðanna í Laugardalshöllinni í nóvember
Haukur Helgi Pálsson keyrir upp að körfu Búlgara í leik liðanna í Laugardalshöllinni í nóvember vísir/anton
Tékkar unnu nauman sigur á Búlgaríu í undankeppni HM 2019 í körfubolta í dag, en liðin spila í sama riðli undankeppninnar og Ísland.

Tékkar voru með undirtökin eftir fyrsta leikhluta en heimamenn í Búlgaríu svöruðu í örðum leikhluta og leiddu 48-37 í hálfleik. Þjálfari Tékka hefur lesið þeim ræðuna í hálfleiknum því þeir lokuðu vörninni í þriðja leikhluta og Búlgarar skoruðu aðeins 8 stig á móti 17 stigum Tékka.

Loka leikhlutinn var svo mjög spennandi þar sem jafnt var með liðunum út allan leikhlutann sem endaði í 76-78 sigri Tékka.

Úrslitin eru mjög hagstæð fyrir Ísland. Nú eru Tékkar efstir með sex stig, Búlgarar með fjögur, Finnar þrjú og Ísland tvö. Nái íslensku strákarnir að vinna nokkuð vængbrotið lið Finna í Laugardalshöllinni í kvöld fara bæði Ísland og Finnland í fjögur stig og því allt galopið í riðlinum þegar hann er hálfnaður.

Þrjú efstu liðin fara áfram í milliriðla undankeppninnar þar sem ræðst hverjir fara á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×