Erlent

Norður Kóreumenn sagðir hafa lýst yfir vilja til viðræðna við Bandaríkjamenn

Moon Jae-in, forseti Suður Kóreu, og norður kóreski hershöfðinginn Kim Yong-chol
Moon Jae-in, forseti Suður Kóreu, og norður kóreski hershöfðinginn Kim Yong-chol Vísir/EPA
Yfirvöld í Norður Kóreu eru sögð reiðubúin til viðræðna við bandarísk yfirvöld. Greint er frá þessu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en þar segir að þetta hafi orðið ljóst eftir að norður kóreski hershöfðinginn Kim Yong-chol hitti forseta Suður Kóreu, Moon Jae-in, fyrir lokaathöfn Vetrarólympíuleikanna í Pyeongchang í Suður Kóreu.

Á vef BBC er því haldið fram að þetta sé tilraun Norður Kóreu til að spilla sambandi Suður Kóreu og Bandaríkjamanna. BBC segir einnig frá því að dóttir Donalds Trump forseta Bandaríkjanna, Ivanka Trump, sé viðstödd lokaathöfnina.

Eru bandarískir embættismenn sem eru viðstaddir Ólympíuleikanna sagðir hafa útilokað að hitta sendinefnd Norður Kóreu.

Hefur BBC eftir Bandaríkjamönnum að Norður Kóreumenn hafi ákveðið að hætta við fund með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, á meðan opnunarhátíð leikanna stóð. 

Yfirvöld í Bandaríkjunum kynntu á föstudag frekari þvinganir á Norður Kóreu til að fá þá til að láta af kjarnorkuvopnatilraunum sínum. Norður Kóreumenn lýstu því yfir fyrir skömmu að þessar þvinganir væru ekkert annað en stríðsyfirlýsing af hálfu Bandaríkjamanna.

Í yfirlýsingu frá yfirvöldum í Norður Kóreu vegna ákvörðunar Bandaríkjamanna kom fram að yfirvöld í Norður og Suður Kóreu hefðu átt í góðu samstarfi á meðan Vetrarólympíuleikarnir hafa staðið yfir. Hins vegar voru yfirvöld í Norður Kóreu ekki eins ánægð með Bandaríkjamenn og sögðu þá hafa aukið hættuna á stríði til muna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×