Körfubolti

Craig: Baráttan skiptir meira máli en fegurðin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Craig á hliðarlínunni í dag
Craig á hliðarlínunni í dag vísir/bára
Craig Pedersen, landsliðsþjálfari Íslands, var ánægður með frammistöðu liðsins gegn Tékkum í Laugardalshöllinni í kvöld. Liðið hafði eins stigs sigur 76-75, eftir að hafa leitt nær allan leikinn.

„Baráttan og viljastyrkurinn í liðinu var gríðarleg í dag. Í leik eins og þessum, og þessum á föstudaginn, þá getur það skipt sköpum og er mikilvægara en að leikurinn sé fallegur,“ sagði Craig eftir leikinn.

„Við gerðum nóg til þess að ná í sigurinn í kvöld. Ég vildi óska að hann hefði verið aðeins þægilegri í lokin, en svona er þetta í íþróttum.“

„Ég var að vonast til þess að við næðum allavega að sækja á körfuna í lokin og komast á vítalínuna, en það gerðist ekki. Vörnin þeirra þéttist mjög mikið og við náðum ekki að komast almennilega að körfunni.“

„Á sama skapi fundu þeir lausnir hinu megin sem við réðum ekki við. Sem betur fer þá hittu þeir ekki úr vítaskotinu í lokin.“

Tryggvi Snær Hlinason kom inn í liðið í dag, en hann náði ekki til landsins fyrir leikinn gegn Finnum. Tryggvi átti sterka innkomu og var næst stigahæstur í íslenska liðinu með 15 stig ásamt því að hann var mikilvægur í vörninni.

„Í þessum leik þá skipti hann miklu máli. Hann neyddi þá til að breyta sínum leik. Þetta er leikur þar sem við þurftum klárlega á honm að halda, annað en í leiknum á föstudaginn.“

„Hann stóð sig vel í dag og við sjáum framfarirnar frá því við sáum hann síðast og það var mjög mikilvægt að fá hann í liðið í dag.“

Sigurinn skiptir miklu máli í riðlinum, en Tékkland hafði ekki tapað leik til þessa. Ísland hélt sér í öðru sæti, jafnir á stigum og Finnar og einu stigi á eftir Tékkum.

„Riðillinn er svo þéttur að þó svo sigurinn hafi hjálpað þá þurfum við virkilega á því að halda að vinna einn af síðustu tveimur leikjunum,“ sagði Craig Pedersen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×