Körfubolti

Logi: Frábært að labba frá þessu svona

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Logi Gunnarsson var heiðraður fyrir leik
Logi Gunnarsson var heiðraður fyrir leik vísir/bára
Logi Gunnarsson kvaddi íslenska landsliðið í körfubolta í kvöld þegar hann lék sinn síðasta leik fyrir liðið. Kveðjuleikurinn var magnaður og fór íslenska liðið með eins stigs sigur á Tékklandi eftir mikla dramatík í lok leiks.

„Þetta gat ekki endað betur,“ sagði Logi eftir leikinn, klyfjaður blómvendi sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, færði honum fyrir leikinn.

„Ég sagði í viðtölum fyrir leikinn að ég væri að vonast eftir tveimur sigrum á móti þessum sterku þjóðum. Maður vissi að það væri langsótt því þetta eru hörku körfuboltaþjóðir, en að taka þessa tvo leiki er fullkominn endir á mínum ferli.“

Þrátt fyrir magnaðan leik var Logi ekki farinn að endurhugsa ákvörðun sína.

„Mér finnst ég vera búinn að vera nógu lengi í þessu. Ég finn fyrir að ég er ánægður með ferilinn minn og það sem ég hef gefið íslenskum körfubolta.“

„Vonandi er fólk ánægt með mig, komandi kynslóð er að koma inn með frábærum körfuboltamönnum og ég hef engar áhyggjur með framhaldið. Við erum að skila góðu búi og það eru fleiri að fara að hætta í næstu leikjum fljótlega. Ég er mjög sáttur við þessa ákvörðun og við erum ekki í vanda með framtíðina.“

„Við gerðum leikinn óþarflega spennandi fannst mér. En þegar þú ert að spila á móti stórþjóðum eins og Tékkum þá má ekkert slaka á. Sem betur fer héldum við haus og kláruðum eins stigs sigur.“

„Það er frábært að labba frá þessu svona.“

Sigurinn opnaði stöðuna í riðlinum talsvert, Ísland heldur öðru sætinu og er nú aðeins stigi á eftir Tékkum.

„Okkar stefna er að fara upp úr þessum riðli og halda okkur á meðal bestu þjóðum Evrópu. Þá verðum við áfram A þjóð og við viljum halda þessu gangandi. Við erum búnir að fara á tvö stórmót í röð, fámennasta þjóðin í sögu körfuboltans, og við viljum halda því gangandi,“ sagði Logi Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×