Körfubolti

Kínverski draumurinn lifir enn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Martin Hermannsson,
Martin Hermannsson,
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta fylgdi eftir góðum sigri á Finnum á föstudaginn með naumum sigri á Tékkum í gær í undankeppni fyrir HM í Kína 2019. Fékk Ísland fullt hús stiga út úr þessu tveggja leikja landsleikjahléi.

Með sigrunum eru líkur Íslands á að komast á næsta stig undankeppninnar betri en fram undan eru leikir gegn Búlgörum og Finnum ytra í sumar.

Íslenska liðið leiddi stærstan hluta leiksins og var með fjórtán stiga forskot þegar fjórar mínútur voru eftir en áhlaup Tékka sem byggt var á nautsterkri vörn var ekki langt frá því að stela sigrinum. Tékkar fengu tvö vítaskot til að jafna metin þegar tvær sekúndur voru eftir en eftir að hið seinna geigaði mátti ekki miklu muna að tékkneska liðið næði að blaka boltanum niður.

Var farinn að skipuleggja lokasókn

„Við vorum að spila frábærlega og náðum að byggja þetta góða forskot en svo kemur einhver nokkurra mínútna kafli þar sem allt er stopp í sóknarleiknum. Þeir voru að spila mjög sterka vörn og við vildum sækja vítaskot við körfuna en það gekk ekkert,“ sagði Craig Pedersen, þjálfari íslenska landsliðsins, feginn að leikslokum en hann viðurkenndi að púlsinn hefði skotist upp á lokamínútunum.

„Ég var farinn að skoða hvaða kerfi við myndum setja upp ef þeir myndu jafna en sem betur fer datt ekki skotið þeirra í lokin. Það hefði verið grátlegt að tapa leiknum þar.“

Craig vonaðist til þess að liðið myndi byggja á þessu í leikjunum sem eftir eru. „Við sýndum það hér og höfum sýnt það í gegnum tíðina að við getum unnið langflest lið á okkar degi, þetta er mjög jafn riðill og flestir leikir eru að vinnast á nokkrum stigum. Þetta verður jafnt allt til loka og ef við spilum svona þar sem allir eru að koma með eitthvað inn á borðið þá gefum við okkur tækifæri.“

Ungu burðarásarnir

Tryggvi Snær Hlinason kom aftur inn í hóp íslenska liðsins eftir að hafa misst af leiknum gegn Finnum þegar hann var veðurtepptur í Svíþjóð og lét hann til sín taka á þeim mínútum sem hann fékk.

Í varnarleiknum var hann að þvinga gestina í erfiðari skot og hirða upp fráköstin á sama tíma og liðsfélagar hans voru duglegir að reyna að koma boltanum til hans og nýta hæðina undir körfunni. Var hann með 15 stig og átta fráköst á tuttugu mínútum.

Þá var Martin Hermannsson eins og í öðrum leikjum liðsins í þessari undankeppni lykilmaður í sóknarleik Íslands en hann var með 26 stig í leiknum í gær. Hann var duglegur að skapa sér eigin skot og var að hitta vel en Tékkarnir lögðu greinilega áherslu á að reyna að koma boltanum úr hans höndum á lokamínútunum þegar íslenska liðið missti alveg taktinn í sóknarleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×