Innlent

Meistarar vilja ekki breytingar á launasjóðnum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Laun stórmeistara verða 428 þúsund krónur.
Laun stórmeistara verða 428 þúsund krónur. Vísir/Anton
„Frumvarpsdrögin [eru] áfall, vonbrigði og í fullkomnu ósamræmi við aðkomu löggjafarvaldsins í gegnum tíðina.“ Svo hefst umsögn þriggja íslenskra stórmeistara um frumvarpsdrög að nýjum lögum um launasjóð skákmanna.

Frá árinu 1991 hefur Launasjóður íslenskra stórmeistara í skák verið til og hafa stórmeistarar getað fengið greitt úr honum til að helga sig skáklistinni. Nú stendur til að leggja sjóðinn niður í núverandi mynd og koma á fót kerfi sambærilegu því sem listamenn hafa vanist, það er að stórmeistarar hætti að fá föst laun frá ríkinu og njóti þess í stað verktakagreiðslna. Undanfarið hafa fjórir stórmeistarar fengið greitt úr sjóðnum.

Ein umsögn barst frá stórmeisturunum Héðni Steingrímssyni, Hannesi Hlífari Stefánssyni og Lenku Ptacnikovu. Telja þau að með frumvarpinu verði grafið gróflega undan fólki sem hefur skák að atvinnu. Þess í stað hampi það meðalmennsku. Einnig er sett út á það að um leið og umsókn í sjóðinn er skilað þurfi að fylgja áætlun um skákmót sem umsækjandi hyggst taka þátt í á komandi ári.

Samkvæmt frumvarpinu verða starfslaun rúm 428 þúsund krónur á mánuði en í núgildandi lögum er miðað við lektorslaun. Stórmeistararnir segja að þessu hafi ekki verið fylgt í raun heldur hafi stórmeisturum verið greidd lágmarkslaun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×