Erlent

Frost fór niður í 42 gráður í Noregi

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Mikil snjókoma í Bretlandi hefur valdið röskunum á samgöngum.
Mikil snjókoma í Bretlandi hefur valdið röskunum á samgöngum. Visir/AP
Frost fór niður í 42 gráður á selsíus í Heiðmörk í Noregi í nótt. Norska veðurstofan segir þetta nýtt met fyrir mælistöðina við bæinn Folldal í Heiðmörk. Bærinn liggur í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli en þar búa tæplega 1800 manns. Víða í Noregi fór frost undir 30 stig í nótt. Verdens gang greinir frá.

Í
 Danmörku mældist rúmlega 10 gráðu frost í dag á Norður-Sjálandi. Þar furða menn sig á því að síðasti dagur vetrarins skuli einnig vera sá kaldasti. Mælir DR með því að þau sem eigi sér ekkert sérstakt erindi út fyrir hússins dyr í dag haldi sig heima, súpi á kakói og horfi á sjónvarpið.

Mikil snjókoma hefur valdið röskunum í Bretlandi í dag. Tafir hafa verið á samgöngum og ekki var kennt þúsundum skóla í dag. Alls 400 bílar sátu fastir á A1 hraðbrautinni í nótt. Þá hefur breska Veðurstofan gefið út rauða viðvörun fyrir hluta Skotlands. BBC hefur í dag streymt fréttum af veðrinu í rauntíma.

Eins og Vísir fjallaði ítarlega um í gær er kuldakastið á meginlandi Evrópu tilkomið vegna röskunar á meginveðurkerfi norðurhvelsins.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, sagði að þessi viðsnúningur í veðurfari á norðuskautinu og meginlandinu tengist. Ástæðan væri röskun sem hafi orðið í meginveðurkerfi norðurhvelsins sem hófst um og fyrir miðjan febrúar.

Á veturna heldur vestanvindabelti hrollköldu loftinu yfir norðurskautinu að mestu leyti í skorðum þó að það sleppi stundum út í litlum skömmtum eins og Íslendingar þekkja í norðanátt.

Um miðjan febrúar hlýnaði hins vegar heiðhvolfið yfir norðurskautinu skyndilega. Sú hlýnun brýtur niður og veikir vestanvindabeltið.

„Þegar slaknar á aðhaldi vestanvindabeltisins gerist það að hlýrra loft getur komist lengra norður og inn á heimskautasvæðið og kaldara loft sem alla jafna á heima á heimskautunum fer til suðurs,“ sagði Einar.

Óvenju hlýtt er því á Norðurheimskautinu á meðan að óvenju kalt er yfir Evrópu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×