Erlent

Annar ráðgjafi Trump sakaður um ofbeldi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Donald Trum forseti Bandaríkjanna.
Donald Trum forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Ræðuskrifari hjá bandaríska forsetaembættinu sagði upp í gær í kjölfar ásakana um heimilisofbeldi. David Sorensen er annar starfsmaður Hvíta hússins sem segir upp í vikunni vegna ásakana um ofbeldi gegn konum. Jessica Corbett fyrrum eiginkona Sorensen sagði blaðamanni Washington Post að hann hafi beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi í hjónabandinu. Þau voru gift í rúmlega tvö ár.

Corbett lýsti því meðal annars hvernig Sorensen hefði keyrt bíl yfir fót hennar, slökkt í sígarettu á handlegg hennar og hent henni upp að vegg. Sorensen neitar allri sök og sagði við Washington Post að hann hafi aldrei beitt konu ofbeldi. Kom þar fram að hann hafi sagt upp til að hlífa Hvíta húsinu við þessu máli samkvæmt frétt BBC.

Rob Porter sagði upp starfi sínu hjá bandaríska forsetaembættinu í vikunni vegna ásakana um heimilisofbeldi gegn tveimur fyrrverandi eiginkonum. Hvíta húsið hefur verið gagnrýnt fyrir að hafa tekið seint og illa á málinu. Donald Trump forseti Bandaríkjanna hrósaði Porter í gær og óskaði honum alls hins besta. Minnti hann fréttamenn á að Porter hafi haldið fram sakleysi sínu og það væri mikilvægt að hafa það í huga.


Tengdar fréttir

Ráðgjafi Trump hættir eftir frásagnir fyrrverandi

Einn af helstu ráðgjöfum Bandaríkjaforsetans Donald Trump hefur verið gert að segja upp störfum eftir að tvær fyrrverandi eiginkonur ráðgjafans sökuðu hann um líkamlegt og andlegt ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×