Erlent

Pence opinn fyrir viðræðum við Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pence og Moon Jae-in á ólympíuleikunum í PyeongChang.
Mike Pence og Moon Jae-in á ólympíuleikunum í PyeongChang. Vísir/AFP
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, segir Bandaríkin sjá viðræður við Norður-Kóreu um kjarnorkuvopnaáætlun þeirra í jákvæðara ljósi en áður. Yfirvöld Suður-Kóreu undirbúa nú að halda opinberar viðræður við nágranna sína og samkvæmt Pence hafa Bandaríkin samþykkt hvernig útvíkka mætti þær viðræður með mögulegri aðkomu Bandaríkjanna og beinum viðræðum þeirra við Norður-Kóreu.

Spenna á Kóreuskaganum hefur verið mjög mikil að undanförnu, vegna kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu og tilraunum þeirra með kjarnorkusprengjur og eldflaugar til að bera slík vopn, meðal annars til Bandaríkjanna.

Þá hafa Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu skipst á móðgunum.

Pence sagði í samtali við Washington Post að ekki yrði dregið úr viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum fyrr en ríkisstjórn Kim Jong Un samþykkir að láta af kjarnorkuvopnaáætlun sinni og gefa frá sér öll kjarnorkuvopn.



Hingað til hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna sagt að ekki sé vilji til að ræða beint við Norður-Kóreu fyrr en þeir taki skref í átt að kjarnorkuafvopnun. Eftir að hafa rætt við Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, segir Pence að þvinganir muni ekki verða felldar niður og verði þær jafnvel auknar. Hins vegar séu Bandaríkin tilbúin til viðræðna.

Á fundi Pence og Moon ítrekaði varaforsetinn að alþjóðasamfélagið mætti ekki endurtaka sömu mistök og áður og létta á þrýstingi á Norður-Kóreu í staðinn fyrir viðræður. Moon samþykkti það og sagði að Norður-Kórea myndi ekkert græða á viðræðunum einum og sér.

Aðspurður um hvaða skref Norður-Kórea þyrfti að taka til að þvinganir yrðu felldar niður sagðist Pence í rauninni ekki vita það.

„Til þess eru viðræður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×