Golf

Rory í ráshóp með Tiger: Alltaf gaman að spila með hetjunni sinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiger Woods og Rory McIlroy.
Tiger Woods og Rory McIlroy. Vísir/Getty
Það er heldur betur boðið upp á súperráshóp á fyrstu tveimur keppnisdögum opna Genesis golfmótsins á PGA-mótaröðinni sem hefst í kvöld og verður í beinni á Golfstöðinni.

Tiger Woods er að spila á mótinu og með honum í þessum súper ráshóp eru þeir Rory McIlroy og Justin Thomas. Woods er allur að koma til eftir síðustu bakaðgerðina sína í apríl og það bíða margir golfáhugamenn spenntir eftir að sjá hann spila næstu dagana.









Justin Thomas var efstur á peningarlista PGA-mótaraðarinnar á síðasta ári, Tiger Woods hefur unnið fjórtán risatitla og verið í 683 vikur á toppi heimslistans og Rory McIlroy var á sínum tíma í 95 vikur á tpppi heimslistan.

Rory er enn bara 28 ára gamall en hefur unnið fjögur risamót á ferlinum. Justin Thomas vann sitt fyrsta og eina risamót í á PGA-mótinu í fyrra. Tiger Woods hefur verið mikið frá vegna meiðsla en náði 23. sæti á fyrsta móti ársins.

Rory McIlroy var ánægður með að fá að spila með átrúnargoðinu sínu. „Ég hef verið aðdáandi Tiger síðustu tuttugu árin. Ég held að allir á mínum aldri hafi orðið fyrir miklum áhrifum frá honum og hvernig hann nálgaðist golfíþróttina. Hann var golfið í meira en áratug. Það er frábært að hafa fengið að kynnast honum og að geta kallað hann vin sinn,“ sagði Rory McIlroy við ESPN.







Rory McIlroy og Tiger Woods hafa spilað saman ellefu hringi á PGA-mótaröðinni en þetta er í fyrsta sinn síðan á Mastersmótinu 2015. McIlroy lék þá á 66 höggum en Woods á 73 höggum. Woods hefur samt spilað betur á sex hringjum.

„Ég man vel eftir því þegar ég hitti hann í fyrsta sinn og spilaði með honum fyrst. Það var fyrir átta eða níu árum þannig að ég er búinn að venjast því aðeins. Samt sem áður þá er alltaf gaman að fá að spila með einni af hetjunum sínum,“ sagði  Rory McIlroy.

Útsending Golfstöðvarinnar frá opna Genesis mótinu hefst klukkan 19.00 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×