Lífið

Sunddrottning gæti orðið dansdrottning

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir kann svo sannarlega að synda, en getur hún dansað? Það mun koma í ljós í þáttunum.
Hrafnhildur Lúthersdóttir kann svo sannarlega að synda, en getur hún dansað? Það mun koma í ljós í þáttunum. Vísir/Stefán
Hrafnhildur Lúthersdóttir er á meðal þeirra sem munu klæða sig í dansskóna í sjónvarpsþáttunum Allir geta dansað sem fara í sýningu á Stöð 2 þann 11. mars. Um er að ræða íslenska útgáfu af þáttunum Dancing with the Stars.

„Mér líst ótrúlega vel á að taka þátt og hlakka rosalega mikið til!“ segir Hrafnhildur í samtali við Vísi. Hrafnhildur er ein fremsta íþróttakona sem Ísland hefur alið.

Hrafnhildur er aðeins 26 ára, en hún varð í 2. sæti í kjöri á íþróttamanni ársins árið 2016. Hún hafnaði í sjötta sæti í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó. Þá varð Hrafnhildur fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna á stórmóti í 50 metra laug.

„Ég hef enga dansreynslu þannig séð en ég er ekki feimin við að henda mér út á dansgólfið þegar það er tækifæri til,“ segir Hrafnhildur á léttum nótum.

Hvort það verði Hrafnhildur eða einhver hinna níu þjóðþekktu Íslendinga sem mun standa uppi sem sigurvegari í vor á eftir að koma í ljós. Hún er í það minnsta klár í slaginn.

„Ég er ekki stressuð, allavega ekki ennþá, bara spennt!“

Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, annar kynna þáttarins, ræddi þættina í útvarpsþættinum Brennslunni á FM 957 í morgun.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×