Innlent

Brexit: Viðræður hafnar um að tryggja stöðu Íslendinga í Bretlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Alls búa 18 þúsund norskir ríkisborgarar í Bretlandi, um tvö þúsund Íslendingar og fjörutíu Liechtensteinar.
Alls búa 18 þúsund norskir ríkisborgarar í Bretlandi, um tvö þúsund Íslendingar og fjörutíu Liechtensteinar. Vísir/Getty
Viðræður eru hafnar milli breskra stjórnvalda og stjórnvalda á Íslandi, Noregi og Liechtenstein sem hafa það að markmiði að tryggja íslenskum, norskum og liechtensteinskum ríkisborgurum sambærilega stöðu og ríkisborgurum ESB-ríkja í Bretlandi, eftir að Bretland gengur úr sambandinu á næsta ári.

Viðræðurnar taka einnig til þess að staða Breta sem búsettir eru í umræddum EFTA-ríkjunum verði tryggð.

Frá þessu er greint á heimasíðu breskra stjórnvalda. Bretar náðu í desember samkomulagi við ESB-ríkin um stöðu og réttindi Breta í aðildarríkjum ESB, og ríkisborgara ESB-ríkja í Bretlandi, eftir útgöngu Bretlands. Alls búa nú þrjár milljónir ríkisborgara aðildarríkja ESB í Bretlandi og ein milljón Breta í aðildarríkjum ESB.

Í fréttinni segir að fulltrúar breskra stjórnvalda hafi nú fundað með fulltrúum EES-EFTA ríkjanna í þeim tilgangi að tryggja að samkomulagið taki einnig til Íslands, Noregs og Liechtenstein.

Samkomulagið sem Bretar náðu við ESB-ríkin nær til búsetu, rétt til heilsugæslu, lífeyrisréttinda, gagnkvæmri viðurkenningu á starfsréttindum og fleira.

Tvö þúsund Íslendingar í Bretlandi

Alls búa 18 þúsund norskir ríkisborgarar í Bretlandi, um tvö þúsund Íslendingar og fjörutíu Liechtensteinar. Um 15 þúsund Bretar búa í Noregi, um átta hundruð á Íslandi og um sextíu í Liechtenstein.

Fyrsti fundur breskra íslenskra, norskra og liechtensteinskra embættismanna fór fram síðastliðinn mánudag þar sem allir málsaðilar lýstu yfir vilja til að ná samkomulagi. Þá voru næstu skref viðræðnanna útlistuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×