Menning

Guðmundur Ingi og Halldóra Geirharðsdóttir ráðin til LHÍ

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Halldóra og Guðmundur hafa komið víða við á löngum ferli innan sviðslistanna.
Halldóra og Guðmundur hafa komið víða við á löngum ferli innan sviðslistanna. Vísir/Samsett
Guðmundur Ingi Þorvaldsson hefur verið ráðinn lektor í leiklist við Listaháskóla Íslands og Halldóra Geirharðsdóttir prófessor í leiktúlkun við sama skóla. Þetta kemur fram á vef Listaháskólans.

Guðmundur hefur verið ráðinn lektor í leiklist með áherslu á aðferðir samtímasviðslista við sviðslistadeild Listaháskólans. Alls sóttu níu um stöðuna og hlutu fimm þeirra hæfi.

Á vef Listaháskólans kemur fram að Guðmundur hafi viðamikla þekkingu og reynslu á sínu sérsviði sem leikari, hafi miðlað verkum sínum á fagvettvangi auk þess að hafa þekkingu á straumum og stefnum í samtíðasviðslistum. „Hann hefur leikið í fjölda leiksýninga, í kvikmyndum og sjónvarpi bæði hérlendis og erlendis. Auk þess hefur hann töluverða reynslu af leikstjórn á sviði og í útvarpi.“

Guðmundur hefur nokkra kennslureynslu á háskólastigi auk kennslu á framhaldsskólastigi. Hann lauk leikaranámi frá Leiklistarskóla Íslands, meistaragráðu í sviðslistum frá Goldsmith, University of London og MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík.

Halldóra Geirharðsdóttir hefur verið ráðin prófessor í leiktúlkun við sviðslistadeild. Alls sóttu níu um stöðuna og hlutu sex þeirra hæfi. 

Í tilkynningu Listaháskólans segir: „Halldóra hefur verið fastráðin leikkona hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu frá 1996 þar sem hún hefur leikið í fjölda leiksýninga, oft í burðarhlutverkum. Hún hefur verið meðhöfundur að fjölda leiksýninga þar á meðal Jesús Litla sem var valin sýning ársins á Grímunni 2010. Hún hefur hlotið fjölda tilnefninga til Grímuverðlaunanna og hlaut Grímuna fyrir leik sinn í Billy Elliot 2015 og Edduverðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki í kvikmyndinni Málmhaus 2014. Auk þessa hefur Halldóra hefur nokkra reynslu í leikstjórn.“

Þá hefur Halldóra nokkra kennslureynslu á háskólastigi. Halldóra lauk leikaranámi frá Leiklistarskóla Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×