„Ég get alveg sagt þér strax að það er ekkert hægt að spá fyrir um framhaldið,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, aðspurð um næstu vendingar í jarðhræringum við Grímsey.
„En þetta er bara stöðugt. Í dag voru eitthvað í kringum tíu skjálftar yfir þremur og þetta er gríðarlegt magn. Þetta eru alveg rúmlega 1500 skjálftar, ef ekki meira, í dag og heldur bara áfram.“

Enginn stór skjálfti hefur þó mælst síðan fyrri part dags.
„En við höldum áfram að vakta þetta þangað til það hættir eða eitthvað gerist, það verður bara að koma í ljós,“ segir Salóme en bætir við að enginn gosórói hafi enn fylgt skjálftunum.
Sjá einnig: Á annað þúsund skjálftar mælst við Grímsey
Salóme segir mikið álag á starfsfólki Veðurstofunnar sem vinni við að vakta skjálftana. Aukið mannafl hafi þurft við skjálftavaktina og sérfræðingar kallaðir sérstaklega út.
Jarðskjálftahrinur hafa verið mjög tíðar við Grímsey undanfarin misseri og þá hefur ein slík nú staðið nær óslitið síðan 14. febrúar. Margir skjálftanna hafa fundist í Grímsey, einn Grímseyingur flúði til að mynda hús sitt í vikunni og svaf um borð í báti sínum.
„Þetta er helvítis ófögnuður, það er ekkert öðruvísi við það. Mér er hrikalega illa við þetta og er skíthræddur við þetta. Ég viðurkenni það alveg," sagði Gylfi Gunnarsson, sjómaður í Grímsey, í samtali við fréttastofu.