Innlent

Hús Sunnu og Sigurðar til sölu á 172 milljónir króna

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Lögregluyfirvöld eru bjartsýn á að hægt verði að flytja rannsókn á sakamálinu sem tengist Sunnu Elviru Þorkelsdóttur til Íslands á næstu dögum. Yfirvöld á Spáni eiga einungis eftir að samþykkja réttarbeiðni dómsmálaráðuneytisins þess efnis.

Dómsmálaráðuneytið sendi beiðnina til Spánar fyrir helgi. Enginn tímafrestur er á henni en óskað var eftir því að málið yrði unnið með hraði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni vantar einungis afgeiðslu beiðninnar á Spáni til þess að hægt verði að flytja rannsókn á Skáksambandsmálinu svokallaða, sem varðar innflutning á fíkniefnum, til Íslands. Er lögregla bjartsýn á að málið verði afgreitt í þessari viku.

Þegar þetta gerist fellur farbannið á Sunnu Elviru Þorkelsdóttur sem liggur lömuð á spítala á Malaga niður en sjúkraflugvélin sem hún greiddi fyrir með söfnunarfé frá Íslendingum er enn í biðstöðu í Þýskalandi til þess að flytja hana heim undir læknishendur.

Húsið er auglýst til sölu á spænskri fasteignasíðu.Stöð 2
Eiginmaður Sunnu, Sigurður Kristinsson, situr í gæsluvarðhaldi á Íslandi vegna málsins og mun lögreglan ræða við Sunnu þegar hún kemur til landsins.

Hjónin hafa sett húsið sitt í Marbella á sölu en það er metið á 1,4 milljónir evra, eða 172 milljónir íslenskra króna, samkvæmt skráningu á spænskri fasteignasíðu. Sunna vildi ekki tjá sig um eignina þegar eftir því var leitað en á dögunum sagði hún að fjárhagsörðugleikar hjá eiginmanni sínum gætu hafa leitt hann til fíkniefnainnflutnings.

Fari svo að íslensk yfirvöld taki yfir rannsókn á málinu verður það augljós afleiðing að ekki verður ástæða til að halda henni í farbanni á Spáni.Vísir/Egill
„Mig grunar núna eftir á að hann hafi farið út í þessar aðgerðir, út í þennan gjörning til þess að standa skil á skuldum sem hann átti eftir að gera upp heima sem tengjast byggingafyrirtækinu hans. Það eru semsagt og voru skuldir þar sem á eftir að gera upp," sagði Sunna í viðtali við Stöð 2 í síðustu viku. 

Sigurður rak verktakafélagið SS hús ehf. sem hefur komið að byggingu fjölmargra fasteigna á Íslandi. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í byrjun janúar og leikur grunur á undanskotum eigna. Að sögn skiptastjóra hefur verið óskað eftir upplýsingum um millifærslur úr félaginu frá fjölmörgum fjármálastofnunum en kröfulýsingafrestur er hálfnaður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×