Innlent

Sunna flutt á betra sjúkrahús

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Jón Kristinn Snæhólm, talsmaður fjölskyldunnar, vonast til að af flutningi Sunnu geti orðið í dag.
Jón Kristinn Snæhólm, talsmaður fjölskyldunnar, vonast til að af flutningi Sunnu geti orðið í dag. Unnur Birgisdóttir
Utanríkisráðuneytið ásamt Sjúkratryggingum Íslands vinnur að því ásamt ræðismanni Íslands á Spáni að fá Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, sem slasaðist alvarlega í Malaga fyrir hálfum mánuði, flutta á annað sjúkrahús á Spáni til að tryggja henni betri heilbrigðisþjónustu. Jón Kristinn Snæhólm, talsmaður fjölskyldunnar, vonast til að af þeim flutningi geti orðið í dag.

Utanríkisráðuneytið hefur verið Sunnu og fjölskyldu innan handar frá því slysið varð þann 17. janúar og hefur komið á sambandi milli fjölskyldunnar og ræðismanns Íslands á staðnum sem hefur aðstoðað fjölskylduna frá fyrsta degi.

Þá hefur ráðuneytið einnig haft milligöngu um samband milli Landspítalans og heilbrigðisyfirvalda á Spáni vegna læknisþjónustu og umönnunar Sunnu, auk samvinnu við Sjúkratryggingar Íslands um leiðir til að bæta líðan hennar á meðan hún er á Spáni meðal annars með aukinni aðstoð og fyrrgreindum flutningi á annað sjúkrahús.

Ráðuneytið getur hins vegar ekki beitt sér fyrir afhendingu vegabréfs Sunnu eða haft önnur afskipti af þeirri lögreglurannsókn sem flækir heimkomu hennar.

Enn hafa engin svör fengist frá lögregluyfirvöldum á Spáni um hvenær vænta megi að hún fái vegabréfið afhent, en því er haldið hjá lögreglunni á Spáni vegna rannsóknarhagsmuna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×