Viðskipti erlent

Mesta lækkun Dow Jones síðan 2008

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Rauðar tölur voru áberandi í Kauphöllinni í New York í dag.
Rauðar tölur voru áberandi í Kauphöllinni í New York í dag. Vísir/Getty
Bandaríska hlutabréfavísitalan Dow Jones lækkaði í dag um 1175 stig eða 4,6 prósent. Þetta er mesta lækkun vísitölunnar á einum degi síðan í september árið 2008.

Metið var áður frá 29. september 2008 þegar vísitalan lækkaði um 777,68 stig á einum degi. Er lækkunin í dag mesta lækkun vísitölunnar á einum degi frá upphafi í stigum talið, en ekki hlutfallslega. 

Dýfa dagsins markar viðsnúning frá þróun vísitölunnar í janúar þegar hún náði 25.000 og 26.000 stigum.

Hlutabréfaverð í Bandaríkjunum hefur verið að hækka almennt síðustu mánuði og hækkaði Dow Jones um meira en 25 prósent á síðast ári. Raunar var óvenjulítið um óróleika á hlutabréfamarkaði árið 2017.

„Það verður meiri óstöðugleiki á mörkuðum í ár,“ segir Andrew Wilson, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá Goldman Sachs bankanum, í samtali við BBC.

Lækkunin hefur haft áhrif á hlutabréfamörkuðum víða um heim. Nasdaq vísitalan lækkaði til að mynda um 3,7 prósent í dag og FTSE vísitalan um 1,46 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×