Erlent

Reyna að hamra saman stjórn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Merkel og Schulz reyna enn að mynda stjórn.
Merkel og Schulz reyna enn að mynda stjórn. fréttablaðið/afp
Kristilegir demókratar og Jafnaðarmannaflokkurinn í Þýskalandi funduðu í gær til þess að reyna að komast að samkomulagi um aðgerðir í heilbrigðis- og atvinnumálum. Málin eru helstu ásteytingarsteinar stjórnarmyndunarviðræðna sem staðið hafa yfir undanfarnar vikur.

Stjórnarkreppa hefur verið í Þýskalandi frá þingkosningum septembermánaðar og náðu flokkarnir ekki að komast að samkomulagi fyrir þann frest sem þeir höfðu gefið sér, sunnudaginn 4. janúar. Samkvæmt flokksmönnum sem hafa tjáð sig um viðræðurnar var þó ákveðið að halda áfram þar sem ekki væri svo langt á milli flokkanna, sem hafa starfað saman í ríkisstjórn frá 2013, í erfiðustu málunum.

„Þetta á eftir að ganga upp,“ sagði Andrea Nahles, þingmaður Jafnaðarmannaflokksins og einn samningamanna, við blaðamenn þegar hún mætti til viðræðna í gær. Annar samningamanna, Karl Lauterbach, sagði helmingslíkur á að samkomulag næðist um stjórnarmyndun.

Kristilegi demókratinn Alexander Dobrindt sagði í tilkynningu í gær að enn væri nokkuð í land. „Í dag komumst við að samkomulagi um Evrópumálin,“ sagði hann og tilkynnti um meiri fjárfestingar á evrusvæðinu og minni niðurskurð. Þá hefði jafnframt verið ákveðið að hækka skatta á stórfyrirtæki.

Samkvæmt heimildum Rhein­ische Post vilja Angela Merkel, kanslari og leiðtogi Kristilegra demókrata, og Martin Schulz, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, bera samning undir flokksmenn í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×