Innlent

Föst nauðug á sama stað

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Sunna Elvira Þorkelsdóttir.
Sunna Elvira Þorkelsdóttir.
Komið var í veg fyrir að Sunna Elvira Þorkelsdóttir, sem liggur alvarlega slösuð á spítala á Spáni, yrði flutt á betra sjúkrahús bæði í gær og fyrradag eins og til hefur staðið.

„Hvort það er einhver skriffinnska eða lögreglan þarna ytra veit ég ekki,“ segir Páll Kristjánsson, lögmaður Sunnu hér heima. Hann segir íslensku lögregluna ekki hafa komið í veg fyrir flutninginn og Sjúkratryggingar Íslands hafi talið allt klappað og klárt þeirra megin.

„Þetta eru væntanlega spænsk lögregluyfirvöld að reyna að pressa á að fá einhverjar upplýsingar og henni er í rauninni haldið nauðugri,“ segir Páll og bendir á að maður Sunnu sé í gæsluvarðhaldi hér á landi vegna máls sem virðist teygja anga sína til Spánar. „Ég veit ekki hvort þeir eru að reyna að koma einhverri óeðlilegri pressu á hann og beiti henni með þessum hætti.“

Páll segist verulega ósáttur við hvernig tekið hefur verið á málinu hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. „Þegar ég spurði þá hvort verið væri að nota hana sem einhvers konar pressu eða þrýsting á að ná fram einhverjum upplýsingum beið ég í fjóra daga eftir svari og var svo bara vísað á borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, sem hefur eðli málsins samkvæmt ekkert með lögreglumál að gera,“ segir Páll.

Hann bíður nú svars frá lögreglunni en hann hefur óskað sérstaklega eftir því að hún beiti sér fyrir því að Sunnu verði sleppt enda sé henni ekki haldið nauðugri að kröfu íslensku lögreglunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×