Erlent

Stjörnukokkurinn Paul Bocuse er látinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Paul Bocuse.
Paul Bocuse. Vísir/afp

Franski stjörnukokkurinn Paul Bocuse er látinn 91 árs að aldri. Innanríkisráðherra Frakklands, Gerard Collomb, tilkynnti um andlát Bocuse á Twitter-reikningi sínum í dag.

Bocuse er helst minnst fyrir framlag sitt til franskrar matargerðar en hann er upphafsmaður svokallaðs „nouvelle cuisine“ eða „nýs eldhúss“ og lagði áherslu á holl hráefni og heilsusamlegri eldunaraðferðir en áður hafði tíðkast. Hann naut mikillar hylli í heimalandi sínu og er heimsmeistaramót kokka, Bocuse d'Or, nefnt í höfuðið á honum.

Þá hefur veitingastaður Bocuse, L‘Auberge du Pont de Collonges, hlotið þrjár Michelin-stjörnur síðan árið 1965. Bocuse hefur auk þess tvisvar verið útnefndur „kokkur aldarinnar“, árið 1989 og árið 2011.

Bocuse var 91 árs þegar hann lést eftir áralanga baráttu við Parkinsonsjúkdóminn. Dánarstaður Bocuse var herbergi fyrir ofan téðan veitingastað hans, L'Auberge du Pont de Collonges.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×