Viðskipti erlent

Amazon opnar kassalausa búð

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Amazon hefur opnað búð án afgreiðslukassa.
Amazon hefur opnað búð án afgreiðslukassa. vísir/afp
Bandaríski netverslunarrisinn Amazon opnaði í gær stórmarkað í borginni Seattle undir nafninu Amazon Go. Opnunin þykir merkileg þar sem engir afgreiðslukassar eru í búðinni en þá tækni hafa starfsmenn Amazon verið að prófa og þróa undanfarið ár.

Verslunin virkar þannig að skynjarar og myndavélar fylgjast með því hvað viðskiptavinir taka úr hillunum. Við inngöngu í verslunina skannar viðskiptavinur kort sitt og svo er hverju því sem tekið er úr hillum verslunarinnar bætt á reikning hans, eða eytt út ef varan er sett aftur á sinn stað. Svo einfaldlega er gengið út úr versluninni með vörurnar og upphæðin sem verslað var fyrir gjaldfærð af reikningi viðskiptavinarins.

Samkvæmt heimildum BBC gekk í fyrstu erfiðlega að tryggja að eftirlitskerfið ruglaði viðskiptavinum ekki saman. Nú hafi það vandamál verið leyst og því hafi verið opnað í gær.

Amazon hefur ekki tilkynnt um nein áform um opnun fleiri Amazon Go verslana og eru þær alls ótengdar Whole Foods-keðjunni sem Amazon keypti á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×