Tinna ræddi ákvörðunina í Ísland í dag-þætti gærkvöldsins og sagði að frá því viðtalið birtist, sem nálgast má hér, hafi hún aðeins styrkst í ákvörðun sinni. Hún sé „handviss“ um að hana langi ekki í börn.
„Ég hef aldrei kunnað vel við börn, ég á mjög erfitt með að tengjast börnum. Ég hef bara aldrei fundið þessa þörf eða tilfinningu,“ segir Tinna sem ákvað að sækjast eftir ófrjósemisaðgerðinni að yfirlögðu ráði.
Ekki aðeins hafi hún unnið á þremur leikskólum og sumarbúðum fyrir börn heldur segist Tinna hafa „hugsað um þetta í mörg ár.“ Hún hafi lesið sig vel til um aðgerðina og kynnt sér reynslusögur erlendra kvenna sem farið hafa í aðgerðina. „Ég veit alveg út í hvað ég er að fara.“
Sjá einnig: Er 27 ára, barnlaus og ætlar í ófrjósemisaðgerð
Hún segist gera sér fulla grein fyrir því að þetta sé ekki ákvörðun sem hún getur tekið til baka. „Þetta er ekki ákvörðun sem ég er að taka af því að ég „nenni ekki að vera á pillunni,“ útskýrir Tinna. „Þetta var bara ekki fyrir mig.“
Þrátt fyrir að segjast hafa fengið yfirgnæfandi jákvæð viðbrögð segir Tinna að auðvitað hafi hún fengið nokkrar misgóðar athugasemdir. Til að myndi hafi hún fengið skilaboð um að „hún myndi fitna og hárvöxtur myndi aukast,“ eitthvað sem hún hefur ekki miklar áhyggjur af.
Hvað með sjálfselsku?
Þá hafi fólk stígið fram sem telur hana vera sjálfselska fyrir að vilja ekki eignast börn. „Við það fólk segi ég bara: Hvað með það? Fólk er að segja að þetta sé sjálfselska en er þetta eitthvað meiri sjálfselska en að eignast börn? Hvað er að því að vera sjálfselskur? Ég veit alveg að ég er sjálfselsk en það þýðir ekki að ég sé vond manneskja,“ segir Tinna.
Þá séu einhverjir sem upplifa það sem svo að ákvörðun Tinnu sé árás á þeirra lífstíl, eins og hún sé að dæma þau fyrir þeirra val að eignast börn. „Ég skil rosa vel að fólk vilji eignast börn, ég skil af hverju - en ég bara er ekki þannig.“
Mestu skipti þó að hún eigi samþykka foreldra og vini sem hafa ekki sýnt henni neitt annað en stuðning. Eða eins og ein vinkona Tinnu komst að orði: „Þetta er eðlileg þróun fyrir þig.“
Viðtalið við Tinnu má heyra og sjá hér að ofan.