Erlent

Mundi ekki lykilorðið sitt og gat því ekki leiðrétt eldflaugaviðvörun

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikil ringulreið ríkti á Hawaii þann 13. janúar.
Mikil ringulreið ríkti á Hawaii þann 13. janúar. Vísir/AFP
Þegar íbúar Hawaii fengu viðvörun fyrr í mánuðinum um að eldflaug hefði verið skotið að eyjunum vissi ríkisstjóri Hawaii, David Ige, innan tveggja mínútna að viðvörunin hefði verið send út fyrir mistök. Hann gat ekki sagt fólk frá því þar sem hann mundi ekki lykilorð sitt á Twitter. Það tók í heildina rúmar 15 mínútur fyrir yfirvöld ríkisins að segja frá því á samfélagsmiðlum að um mistök hefði verið að ræða.

Opinber leiðrétting var ekki gefin út fyrr en 38 mínútum eftir að viðvörunin var send út. Svo virðist sem að starfsmaður Almannavarna Hawaii hafi ýtt á vitlausan takka í lok vaktar sinnar.

Viðvörunin leiddi til þess að íbúar og ferðamenn leituðu skjóls í kjöllurum, undir borðum og víða annars staðar. Samkvæmt frétt CNN hefðu íbúar Hawaii um 20 mínútuna viðvörun ef Norður-Kórea skyti eldflaug að eyjunum.



Washington Post bendir á að það hafi tekið Ige 17 mínútur að setja leiðréttingu á Twitter. Sömuleiðis tók það hann 23 mínútur að segja eitthvað á Facebook. Hann var ekki spurður í dag hvort hann hefði líka gleymt lykilorðinu sínu á þeim samfélagsmiðli.



Ige segir að skref hafi verið tekin svo ómögulegt sé að hann gleymi lykilorðinu aftur og sett Twitter upp í símanum sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×