Erlent

Trump reynir að selja al­þjóða­við­skipta­stefnu sína í Davos

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump þegar hann lenti á flugvellinum í Zürich í Sviss í morgun.
Donald Trump þegar hann lenti á flugvellinum í Zürich í Sviss í morgun. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti mætti til Davos í Sviss í morgun til að taka þátt á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum). Trump mun þar reyna að sannfæra aðra fundargesti um ágæti stefnu stjórnar hans í alþjóðaviðskiptamálum sem gengur út á að setja „Bandaríkin í fyrsta sæti“ (e. America First).

Með stefnu sinni vill Trump reyna að tryggja Bandaríkjunum að gagnkvæm viðskipti þeirra við viðskiptalönd verði sanngjarnari, en Trump segir mikið halla á Bandaríkin í þeim efnum.

Í frétt Reuters  kemur fram að Trump hafi lent í Zürich og verið ekið til skíðabæjarins Davos þar sem hann verður næstu tvo daga ásamt mörgum af helstu leiðtogum heims á sviði stjórnmála og viðskipta. Trump mun flytja sína ræðu á morgun.

Trump verður fyrsti Bandaríkjaforsetinn til að sækja fundinn, sem haldinn er á ári hverju, síðan Bill Clinton mætti árið 2000. Alþjóðasinnar eru fjölmennir á fundinum og verður grannt fylgst með því hvernig Trump muni til takast að sannfæra þá um ágæti þeirrar einangrunarstefnu sem hefur einkennt nálgun hans í viðskiptamálum frá því að hann tók við embætti.

Verndartollar

Talsmenn stjórnar Trump hafa lagt áherslu á að stefnan, „Bandaríkin í fyrsta sæti“, jafnist ekki á við „Bandaríkin aleitt“. Bandaríkin vilji einungis jafna vöruskiptahalla landsins við önnur ríki.

Fyrr í vikunni tilkynnti Trump að innfluttar þvottavélar og vörur sem tengjast sólarorku muni nú bera háa verndartolla í Bandaríkjunum. Sagði Trump að ódýrar innfluttar vörur skaði innlenda framleiðslu. Þannig verður þrjátíu prósent tollur lagður á sólarsellur en hlutfallið mun lækka niður í fimmtán prósent á fjórum árum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×