Erlent

Forsætisráðherra Rúmeníu segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Mihai Tudose tók við embætti forsætisráðherra Rúmeníu í júní síðastliðinn.
Mihai Tudose tók við embætti forsætisráðherra Rúmeníu í júní síðastliðinn. Vísir/AFP
Mihai Tudose hefur sagt af sér sem forsætisráðherra Rúmeníu eftir að þingmenn úr Jafnaðarmannaflokki hans neituðu að lýsa yfir stuðningi við hann. Tudose er annar forsætisráðherra Rúmeníu sem hverfur úr stóli eftir að samflokksmenn hans snúa við honum baki.

Atkvæðagreiðsluna um vantraust á ráðherranum má rekja til deilna Tudose og flokksformannsins Liviu Dragnea. Deilan stigmagnaðist í síðustu viku þegar Tudose bað innanríkisráðherra landsins, sem er náinn bandamaður Dragnea, um að segja af sér.

Dragnea er með sterk ítök í flokknum og ríkisstjórn, þrátt fyrir að hann geti sjálfur ekki gegnt embætti forsærisráðherra eftir að hafa hlotið dóm fyrir kosningasvindl.

Tudose sagði við fréttamenn í gær að hann myndi fara til forseta landsins í dag og biðjast lausnar.

Síðasta sumar sagði forsætisráðherrann Sorin Grindeanu af sér eftir að meirihluti þings samþykkti vantraust á hendur honum. Þingmenn úr flokki hans, Jafnaðarmannaflokknum PSD, studdu margir vantrauststillöguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×