Erlent

Dæmdur fyrir dráp á tíu vikna syni sínum

Atli Ísleifsson skrifar
Borgarting lagmannsrett mildaði dóminn yfir manninum.
Borgarting lagmannsrett mildaði dóminn yfir manninum. wikipedia commons
Dómstóll í norsku höfuðborginni Ósló hefur dæmt 31 árs karlmann í sextán ára fangelsi fyrir að hafa orðið tíu vikna gömlum syni sínum að bana. Hann var dæmdur fyrir dráp, en drengurinn var með mikla höfuðáverka sem leiddu til dauða hans.

Dómstóllinn (Borgarting lagmannsrett) mildaði dóminn í sextán ár, en maðurinn hafði áður hlotið sautján ára dóm á lægra dómstigi.

Drengurinn var fluttur á Akershus háskólasjúkrahúsið í Ósló í desember 2014 með áverka sem bentu til að hann hafi í tvígang verið beittur ofbeldi, í seinna skiptið einungis nokkrum tímum áður en hann kom á sjúkrahúsið.

Móðir barnsins hafði áður verið sýknuð af ákæru um að hafa valdið áverkunum sem leiddu til dauða barnsins. Hún sagðist fyrir dómara margoft hafa sett út á meðferð mannsins á barninu.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða móðurinni 200 þúsund norskar krónur í miskabætur, um 2,5 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×