Erlent

Munu ræða Ólympíuleika í fyrstu viðræðum í tvö ár

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Nordic­photos/AFP
Einræðisstjórn Kim Jong-un í Norður-Kóreu hefur þegið boð Suður-Kóreustjórnar um að halda formlegar viðræður þann 9. janúar næstkomandi. Búist er við því að viðræðurnar fari fram í landamærabænum Panmunjom en þetta verða fyrstu viðræður ríkjanna tveggja frá því í desember 2015. Ekki liggur fyrir hverjir mæta til viðræðna og er þar af leiðandi óljóst hvort einræðisherrann Kim eða suðurkóreski forsetinn Moon Jae-in hittast á þriðjudaginn.

Viðfangsefni viðræðnanna verður þátttaka Norður-Kóreu á vetrar­ólympíuleikunum sem fara fram í suðurkóresku borginni Pyeong­chang síðar á árinu. Unnið verður að því að finna út úr því hvernig þátttökunni verði best háttað. Heimildarmaður suðurkóresku fréttastofunnar Yonhap frá skrifstofu forseta sagði í gær að þar í landi væri talið líklegt að viðræður færu fram um bætt samskipti ríkjanna.

Svo virðist sem Norður-Kóreustjórn vilji vinna að bættum samskiptum og friði en fyrr í vikunni var tilkynnt að bein neyðarlína á milli ríkjanna hefði verið tengd á ný. Síðustu neyðarlínunni, áður en þessi var opnuð, hafði verið lokað stuttu eftir viðræðuslitin í desem­ber 2015.

Ekki eru þó allir sannfærðir um að stjórn Kim hafi nokkurn áhuga á að vinna af alvöru að friðsamlegri framtíð. James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði til að mynda í gær að samkomulagið um viðræður væri til komið vegna þrýstings alþjóðasamfélagsins. Ekki væri hægt að fullyrða hvort um væri að ræða raunverulega stefnubreytingu Kim-stjórnarinnar eða einstaka undantekningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×