Erlent

Norður-Kórea sögð vera „ósigrandi“ kjarnorkuveldi

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hylltur.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hylltur. Vísir/AFP
Norður Kórea mun halda kjarnorkuvopna- og eldflaugatilraunum sínum áfram, svo lengi sem Bandaríkin og bandamenn þeirra halda „kúgunum og stríðsæfingum“ sínum áfram. Þetta kemur fram í frétt ríkisfjölmiðilsins KCNA (virkar sjaldan), sem ber titilinn: „Ekkert getur staðið í vegi sjálfstæðis og réttlætis – Ítarleg skýrsla KCNA“. Í umræddri frétt er farið yfir tilraunir ríkisins með eldflaugar og kjarnorkuvopn á árinu.



Þar er því að haldið fram að Norður-Kórea sé „ósigrandi“ og „ábyrgt“ kjarnorkuveldi og „heimsklassa hernaðarveldi“. Því er einnig haldið fram að ríkinu hafi tekist að þróa langdrægar eldflaugar sem hægt sé að skjóta að meginlandi Bandaríkjanna.



Á þessu ári skutu Norður-Kóreumenn sextán eldflaugum á loft og framkvæmdu sjöttu og öflugustu kjarnorkuvopnasprengingu sína.

Í umræddri grein segir að ekki eigi að búast við stefnubreytingum í Norður-Kóreu og ekki sé hægt að knésetja ríkið með afli. Enn fremur segir að yfirvöld Norður-Kóreu hafi auki varnargetu ríkisins og einnig árásargetu með uppbyggingu kjarnorkuvopnum.

„Norður-Kórea, sem ábyrgt kjarnorkuveldi, mun leiða söguna á hinum eina vegi til sjálfstæðis og réttlætis,og í senn veðra af sér öll óveður plánetunnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×