Viðskipti erlent

Stjórnarformaður Google stígur til hliðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Eric Schmidt, fráfarandi stjórnarformaður Alphabet.
Eric Schmidt, fráfarandi stjórnarformaður Alphabet. Vísir/AFP
Eric Schmidt, stjórnarformaður Alphabet, móðurfyrirtækis netrisans Google, ætlar að stíga til hliðar í næsta mánuði. Hann mun áfram sitja í stjórn fyrirtækisins og starfa sem tæknilegur ráðgjafi.

Alls hefur Schmidt starfað hjá Google í sautján ár. Hann var tilnefndur stjórnarformaður fyrirtækisins í mars 2001 og tók við sem forstjóri í ágúst sama ár. Því starfi gegndi hann fram í apríl 2011 en þá tók Schmidt við sem formaður framkvæmdastjórnar Google.

Þegar Alphabet var stofnað við endurskipulagningu Google í ágúst 2015 varð Schmidt stjórnarformaður móðurfélagsins, að því er segir í frétt CNN.

Á Twitter segist Schmidt, sem er 62 ára gamall, ætla að helga sig vísindum, tækni og mannúðarstarfi af enn frekari krafti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×